Sekt vegna óskoðaðra bifreiða

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 11:03:37 (0)


138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

sekt vegna óskoðaðra bifreiða.

[11:03]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör. Ég er ekkert að tala um að það þurfi að breyta skoðunarskyldunni, en það þarf að breyta framkvæmdinni. Það er ekki nóg að geta sagt að fólkið hafi verið látið vita af því að það sé orðið á eftir áætlun, það þarf að leiðbeina í þessu sambandi vegna þess að um langt árabil var ekki í lagi. Það er alveg ástæða til þess, ekki síst á þessum tímum sem nú eru, að gera fólki grein fyrir því að það lendi í aukagreiðslum sem það sleppur ekkert frá. Af hverju er ekki öllum sent SMS? Eru það bara einhverjir útvaldir?

Það hefur líka verið gert hjá sýslumannsembættinu að senda einhverjum og einhverjum viðvaranir, en það er ekki (Forseti hringir.) regla í því. Ég skora á hæstv. ráðherra að tryggja að þetta verði gert þannig að fólk geri sér grein fyrir því í hvaða stöðu það er.