138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það á að vera tiltölulega létt verk fyrir fjármálastofnanir að gera grein fyrir góðum lausnum á erfiðum málum, en það hefur því miður ekki tekist að undanförnu eins og glöggt hefur komið fram í umræðunni, bæði hér og í samfélaginu. Landsbankinn er að stórum hluta í eigu íslenska ríkisins og að mínu viti eigum við að gera aðrar kröfur til Landsbankans en til annarra fjármálastofnana. Við eigum að gera meiri kröfur til Landsbankans varðandi uppgjör og endurreisn fyrirtækja og endurbyggingu þeirra um það vinnulag sem þar fer fram þannig að það verði skýrara og skarpara og betra hjá öðrum lánastofnunum sem eiga þá að geta fylgt í farið á þessum banka sem er í eigu þjóðarinnar í stað þess að fara eigin leiðir vilji þeir bankar á annað borð vera með.

Mér finnst t.d. sú krafa eðlileg og sjálfsögð að þeir sem hafa stöðu grunaðra í tengslum við rekstur sinn fái ekki sama aðgang og aðrir að fyrirtækjum sínum aftur, a.m.k. á meðan mál þeirra eru rannsökuð. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa og þannig held ég að það sé gert. Sömuleiðis ætti að mínu mati að vera sjálfsögð og eðlileg krafa til fjármálastofnana að stjórnendur fyrirtækja sem hafa fengið tiltekið hámark afskrifta af rekstri sínum fái ekki sama aðgang að fyrirtækjunum sínum aftur, a.m.k. tímabundið, svo dæmi séu nefnd.

Ég vara hins vegar við því að við föllum í þann ljóta pytt að ætla að handvelja einstaklingana sem við teljum þess verða að fá að halda rekstri fyrirtækja sinna áfram í einhverri mynd eftir aðkomu fjármálastofnana. Það er sú leið sem var farin hér árum saman og leiddi okkur í þær ógöngur sem við erum í í dag. Þá leið ætlum við ekki að fara aftur. Skýrasta dæmið um það er einkavæðing bankanna sem er verið að reyna að rétta við núna og koma á fæturna. Það eru víti til að varast, virðulegi forseti, og við skulum forðast að fara þá leið aftur. (Gripið fram í: Hvaða leið þá ætlar þú að fara?)