Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 14:30:07 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Vegna þessarar síðustu ræðu hæstv. fjármálaráðherra vil ég taka fram að það er mjög margt fólk sem lendir einmitt í þeirri stöðu að liggja undir grun um eitt og annað, t.d. það að halda eftir vörslusköttum sem það gerði ekki. Ég hef stundum sagt að 109. gr. ætti að vera bönnuð börnum og er það í rauninni af því að hún er svo skelfileg. Hún er greinilega ekki samin af fulltrúum fólksins heldur af yfirvaldinu, annars mundi hún hljóma öðruvísi. Það bendir aftur til þess, sem ég hef margoft nefnt, að Alþingi ætti sjálft að semja öll þau lög sem það samþykkir, þá væri gætt meira að hagsmunum borgaranna en ekki þeirra stofnana sem oft og tíðum semja frumvörpin í reynd og nota tækifærið til að smíða vopn í hendurnar á sér gegn borgurunum.

Það er einmitt í þessu máli sem það getur komið upp að grunur er um refsiverða háttsemi — grunur getur alltaf vaknað, frú forseti, alltaf. Það er ekkert sem bannar að menn fari að gruna eitt og annað. Menn getur grunað að einhver maður hafi haldið eftir rimlagjöldunum, sem kallað er, haldið eftir virðisaukaskatti eða staðgreiðslu af launþegum sínum. Þá nægir grunurinn, þá geta menn gert það, og talandi um hótanir þá hef ég því miður heyrt um það að opinberar stofnanir láta í veðri vaka eða láta í það skína að eitt og annað kunni að gerast. Ég held því að við ættum að fara mjög varlega í að smíða svona tæki í hendurnar á yfirvöldum. Mín vegna væri svo sem allt í lagi að setja þarna eitthvert lágmark í upphæðinni þannig að ekki sé verið að beita aðgerðum eins og frystingu eigna eða kyrrsetningu eigna þegar um er að ræða minni háttar mál. Kyrrsetning eigna getur í venjulegu rekstrarfyrirtæki gersamlega rústað rekstrinum.

Við þurfum dálítið að gæta að því að þessi litlu fyrirtæki eru oft að gera annað en sinna skattinum alla daga. Þau eru að framleiða eitthvað eða gera eitthvað, veiða fisk eða eitthvað slíkt og hafa ekki tíma til að standa í þeim varnaðaraðgerðum sem þarf til að hindra kyrrsetningu sem oft og tíðum getur valdið því að reksturinn stöðvast. Ég held að hv. efnahags- og skattanefnd þurfi að fara mjög vandlega yfir þetta. Ég vil ekki að hún sé lengi að því, ég tek það fram, ég vil ekki að þetta frestist, ég held að þetta sé mjög brýnt með stóru tölurnar. Þá er það spurning um að gera það fyrst með stóru tölurnar og fara svo mjög vandlega yfir litlu karlana og kerlingarnar sem eru í litlum rekstri og eru að hugsa um eitthvað annað en borga skatta alla daga.