138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu frá þingmönnum allra flokka sem miðar að því að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi. Markmiðið er að gera lagaumhverfið á Íslandi í sérflokki þannig að fjölmiðlar, alþjóðlegir sem innlendir, eigi hér öruggt skjól og það sama á við um aðra, t.d. ýmis mannréttindasamtök, enda er mál- og tjáningarfrelsi ein meginstoð lýðræðisins.

Hér hefur 1. flutningsmaður, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, farið yfir málið og þakka ég henni góða framsögu.

Ég á sæti í iðnaðarnefnd og þar ræðum við mikið um gagnaver þessa dagana. Ég hef mikinn áhuga á slíkri starfsemi hér á landi, enda kjöraðstæður í okkar kalda loftslagi og með ódýra orku. Auk þess mun gagnamagn sem þarf að geyma aðeins vaxa í fyrirsjáanlegri framtíð og eftirspurnin þar með. Þó verður að benda á eitt atriði og það er að okkur skortir tilfinnanlega skýra og sterka löggjöf sem mundi ekki aðeins tryggja samkeppnishæfni gagnavera á Íslandi heldur einnig veita þeim sérstöðu á heimsmarkaði og ákveðið forskot á aðra sem bjóða svipaða þjónustu.

Víða um heim eiga fjölmiðlar undir högg að sækja og umræða sem ekki er þeim sem valdið hafa eða eiga sand af seðlum þóknanleg er markvisst þögguð niður með lögbönnum á birtingu eða jafnvel ofbeldi. Með því að skapa hér sterkt lagaumhverfi til verndar mál- og tjáningarfrelsi skapast aukin tækifæri í þeirri nýju atvinnugrein sem gagnaver eru. Eins og margoft hefur verið bent á skortir okkur Íslendinga sárlega fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Helsti ávinningur okkar Íslendinga af uppbyggingu gagnavera er störf fyrir þá sem þar vinna og sala á raforku, en orka til fyrirhugaðs gagnavers í Reykjanesbæ er seld á verði sem liggur mitt á milli raforkuverðs til álvera og ylræktar í þéttbýli.

Ávinningur heimspressunnar af því að nýta sér það skjól málfrelsis og tjáningarfrelsis sem við höfum áhuga á að skapa hér er hins vegar svo mikill að hún mun ekki gera kröfu um besta orkuverð í heimi eða miklar skattaívilnanir til að fá að hafa hér rafrænt aðsetur með rafræna útgáfu í huga, enda er hún ekki háð staðsetningu að neinu leyti. Hér eru því gífurleg tækifæri til erlendrar fjárfestingar án þess að orkan sé seld á spottprís eða fyrirtækjum ívilnað með skattafsláttum eða annarri fyrirgreiðslu. Beinn fjárhagslegur ávinningur okkar Íslendinga gæti því orðið verulegur þótt það sé í sjálfu sér ekki meginmarkmið tillögunnar. Auk þess eru flest aðföng í þessari atvinnugrein stafræn og þar með umhverfisvæn og kosta ekkert, ólíkt til að mynda í áliðnaði þar sem miklum gjaldeyri er varið í kaup á súráli.

Lagasetning af því tagi sem tillagan mælir með rímar vel við hugmyndir stjórnvalda í atvinnumálum og ef grannt er skoðað mætti jafnvel segja að hún væri mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í að skapa fyrirhuguðum gagnaverum viðunandi lagaumhverfi.

Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir þinginu um gagnaver í Reykjanesbæ kemur fram að fyrirhugaðir viðskiptavinir þess séu m.a. stórnotendur tölvukerfa á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, og olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknastofnana. Mikilvægt er, ekki síst í tilfelli netmiðlunar og fjölmiðla, að tryggja að lagaumhverfið sé eins og best verður á kosið, ekki bara vegna augljósra hagsmuna viðskiptavinanna, heldur einnig gagnaveranna sjálfra. Tryggja þarf að ekki sé hægt að stefna hýsingaraðila, t.d. fyrir ærumeiðandi ummæli sem koma fram í einhverjum þeirra gagna sem gagnaverið geymir, enda ógerningur fyrir stjórnendur þess að fylgjast með hverju einasta gagni í gagnaverinu.

Því ber að fagna þessari tillögu. Hún er okkur bráðnauðsynleg á umbóta- og endurreisnartímum okkar. Hún gefur okkur þingmönnum úr öllum áttum, sem og þjóðinni allri, tækifæri til að sameinast um þarft mál sem felur í sér aukin mannréttindi og miklar lýðræðisumbætur, ekki bara fyrir Ísland, heldur á heimsvísu.