Almenningssamgöngur

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 18:21:09 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[18:21]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í þessu stutta andsvari einmitt að ræða um Reykjavíkurflugvöll. Það er dálítill blæbrigðamunur á málflutningi okkar en engu að síður skiptir þetta mál gríðarlega miklu fyrir þá sem búa úti á landsbyggðinni. Mig langar til þess að fara örstutt yfir það af hverju landsbyggðarmenn eru einhuga um að það verði að vera flugvöllur sem næst stjórnsýslunni og sem næst miðborg Reykjavíkur. Það er einfaldlega vegna þess að stjórnsýslan er nánast öll hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér er líka háskólaspítalinn, hér á að reisa endurbætt háskólasjúkrahús fyrir tugi milljarða og staðsetningin er einmitt hér í miðborg Reykjavíkur.

Þegar menn tala um að það sé ekki svo langt til Keflavíkur þá bendi ég á að þetta eru um 30–40 km. Það eru 388 km á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég veit það vegna þess að ég keyri þá leið stundum oft í viku. Ég er um það bil fjóra, fjóra og hálfan klukkutíma að fara þessa vegalengd, það fer eftir því hvort ég stoppa á leiðinni eða ekki. Ef það á að lengja flugtímann milli Akureyrar og Reykjavíkur fyrir mig þannig að ég þurfi alltaf að fara fyrst til Keflavíkur — maður sér fyrir sér að það sé varla hægt að komast undir tvo tíma — mun ég alltaf keyra. Ég leyfi mér að fullyrða að ég muni taka þann valkost í 90% tilvika og ég ímynda mér að aðrir sem fljúga í sama mæli og ég, eða eru á ferðinni, muni gera slíkt hið sama. Ef menn ætla að færa flugvöllinn til Keflavíkur, (Forseti hringir.) eru menn líka að segja að það megi þess (Forseti hringir.) vegna leggja innanlandsflugið niður.