Heilsugæsla á Suðurnesjum

Fimmtudaginn 04. mars 2010, kl. 11:29:23 (0)


138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir tækifæri til að ræða málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þetta er væntanlega allt of skammur tími fyrir mig til að svara þessu eins og fyrir hv. málshefjanda og verður það þá ekki í fyrsta sinn. Þetta eru yfirgripsmiklar spurningar sem hann leggur fram. Hann spyr hver afstaða ráðuneytisins sé til að leigja út skurðstofur til að afla tekna fyrir aðra starfsemi og þá væntanlega skurðstofanna sjálfra. Hann spyr um stöðu heilsugæslu á Suðurnesjum og hann spyr um möguleika á flutningi heilbrigðisþjónustu frá ríki til sveitarfélaga og hvernig ráðuneytið taki á þeim erindum. Hann spyr um stöðu fæðingardeildarinnar eða fæðingarþjónustunnar og hvort auka eigi ferliverk, þ.e. leigja út til ferliverka þær skurðstofur sem þarna eru.

Ég vil í upphafi taka fram að ég tel ekki rétt að auka ferliverk, að taka upp tvöfalt kerfi víðar en nú er, sérstaklega á þeim tímum þegar verið er að loka því annars staðar. Þá vísa ég til þess að á St. Jósefsspítala þar sem byggt hefur verið á ferliverkasamningum eingöngu á undanförnum árum, er búið að breyta öllu yfir í fastlaunasamninga frá og með nýliðnum mánaðamótum. Þar eru læknar komnir á fastlaunasamninga og er það í samvinnu við stefnu stjórnenda þar og stjórnvalda og gengur vel. Hitt kerfið er býsna dýrt og það er mjög erfitt að hafa tvöfalt launakerfi inni á sömu stofnun, annars vegar ferliverk og hins vegar venjuleg læknisverk, sérstaklega þegar þetta afkastahvetjandi kerfi á aðeins við um eina stétt innan hússins og það eru læknar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um nærsamfélagið og erindi sveitarfélaganna til að taka yfir heilbrigðisþjónustu vil ég taka fram að ég tel að nærsamfélagið eigi einmitt að sinna heilsugæsluþjónustu. Það er bæði faglegur og fjárhagslegur ávinningur af því að mínu mati að samþætta starfsemi sem félagsþjónusta og skólar í sveitarfélögunum veita við almenna heilsugæsluþjónustu og grunnþjónustu í heilbrigðismálum. Ég vil þó minna á afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga sem hefur fremur viljað flytja málaflokka í heilu lagi en þarna eru menn ýmist að tala um heilsugæsluna eða afmarkaða þætti hennar. Það þarf auðvitað að leggja áherslu á að fagleg ábyrgð og fjárhagsleg áhætta fari saman.

Til heilbrigðisráðuneytisins hafa borist mismunandi formleg erindi frá einum fimm sveitarfélögum til þess að taka yfir hluta eða alla heilbrigðisþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Verið er að teikna upp ákveðið verklag sem byggir á þjónustusamningum við Akureyri og Höfn í Hornafirði sem gengur út á það — ég á von á því að fundirnir með Suðurnesjamönnum hefjist í næstu viku — að menn fái tækifæri til að fara yfir vilja fólks og að þeir tilnefni fulltrúa í samninganefnd sem fái svo tiltekinn tíma, sex mánuði eða hvað það nú kann að vera, til að komast að niðurstöðu. Þá þarf auðvitað að gera grein fyrir lagaskilyrðum og kröfum sem sveitarfélögunum ber að uppfylla til að þessar óskir geti komið til álita.

Ég verð að segja, ég hef sagt það áður og verið gagnrýnd fyrir það, að sveitarfélögin á Suðurnesjum eru kannski ekki fjárhagslega í stakk búin til að taka þetta verkefni að sér (Gripið fram í.) eins og nú árar. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur látið hafa það eftir sér að hann sé tilbúinn til að taka við þessu með tiltekinni meðgjöf upp á að mig minnir 50 millj. kr. til viðbótar, en það er auðvitað eins og menn vita ekki inni í myndinni. En þetta er þó samningsatriði og verður auðvitað skoðað.

Ég er að verða búin með tímann minn og verð að segja það um stöðu heilsugæslunnar á Suðurnesjum að ég hef af henni miklar áhyggjur. Á íbúafundinum sem hv. fyrirspyrjandi nefndi komu fram alvarlegar athugasemdir við þjónustu þar. Það hefur líka komið frá sveitarfélögunum. Það er löng bið eftir tímum og eftir þjónustu. Ég hef óskað eftir því og landlæknir er að kanna stöðu heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Ég hef haft efasemdir um þá forgangsröðun sem þarna hefur verið uppi og tel að hugað sé of mikið að sjúkrahússþjónustunni en of lítið að heilsugæslunni. Ég vona að þegar álitsgerð landlæknis liggur fyrir verði hægt að meta þá stöðu upp á nýtt. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Tími minn er liðinn. Ég mun í seinni ræðu minni svara hv. þingmanni um afstöðuna til að leigja út skurðstofur á Suðurnesjum og fara almennt (Forseti hringir.) í nýtingu skurðstofa á landinu.