Heilsugæsla á Suðurnesjum

Fimmtudaginn 04. mars 2010, kl. 11:49:08 (0)


138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

heilsugæsla á Suðurnesjum.

[11:49]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin þótt þau beri nokkurn keim af knöppum tíma, eins og ráðherra sagði sjálfur. Eina leiðin í stöðunni virðist vera að skapa sértekjur með útleigu á skurðstofum þar sem ágóðinn rennur til HSS eða að láta sveitarfélögin taka yfir sem tilraunaverkefni. Hæstv. ráðherra á ekki að tala fyrir munn sveitarfélaganna á Suðurnesjum og segja að þau séu ekki nógu vel í stakk búin til að taka að sér þetta verkefni. Þau eiga sjálf að segja það, þau eiga sjálf að fá að verja sig og segja hvað er að baki þeirri hugsun. Hæstv. ráðherra, það eru fimm sveitarfélög á Suðurnesjum, fimm öflug sveitarfélög, ekki bara Reykjanesbær. Þau standa saman og það styrkir málið. Þetta þarf að vinna strax, það er ekki hægt að bíða í sex mánuði, það á að loka skurðstofunni 1. maí, segja fólkinu upp og þá er fjandinn laus. Það á ekki að vera þannig á sjúkrahúsi.

Það er ekki talað um neina meðgjöf heldur að vinna úr því sem er ætlast til. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Það hefur ekki neitt slíkt verið sett formlega fram. Þúsundir íbúa bíða lausnar ráðherra í takt við vilja og óskir heimamanna. Tugir starfsmanna eru í óvissu, lítill sparnaður kæmi til hjá HSS ef til lokunar kemur vegna biðlauna sem greidd eru á löngu tímabili, það er ársferli. Þetta þarf að hugsa þegar málið er gert upp. Sérfræðingar á HSS segja til að mynda að það þurfi fjóra skurðstofudaga í viku og einn með fullri vakt allan sólarhringinn til að sinna þessari þjónustu. Það hlýtur að vera hægt að finna þessu farveg í sátt og samstarfi við heimamenn. Ég held bara að það væri léttir fyrir heilbrigðisráðuneytið að sigla þessu inn á tilraunaverkefni og hafa það sem fordæmi að nýjum hlutum þar sem menn samræma hefðir og nýja möguleika (Forseti hringir.) í útfærslu.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) er þekktur fyrir að ganga snögglega til verka ef henni sýnist svo. Við ætlum bara að sigla í ljósi þess að (Forseti hringir.) sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn að fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn. Og nú þarf ráðherra til liðsinnis.