Olíugjald og kílómetragjald

Fimmtudaginn 04. mars 2010, kl. 15:49:27 (0)


138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

olíugjald og kílómetragjald.

333. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að taka undir orð mín. Mér láðist að segja frá því að þó að ég sé 1. flutningsmaður að þessu ágæta máli eru aðrir flutningsmenn hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, áðurnefnd Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Það er svo sem ekki miklu að bæta við en þó vil ég geta þess að víða um land á fólk undir högg að sækja vegna þess að atvinnutækifæri eru af skornum skammti. Þau fyrirtæki sem eru til staðar eru samfélaginu gríðarlega mikilvæg. Eins og ég nefndi áðan lenda framleiðslufyrirtækin og sjávarútvegsfyrirtækin t.d. í því að þurfa að bera þennan háa flutningskostnað. Þeir sem leitast við að hagræða hjá sér í rekstri hljóta að horfa í þennan kostnað. Þá spyr ég: Er þá ekki sanngjarnt, úr því að við búum í þessu stóra landi með allar þessar dreifðu byggðir, að við leggjum okkur fram um að jafna flutningskostnað, jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja úti um allt land? Ég held að þessi liður, sérstaklega flutningskostnaðurinn, gæti skipt öllu máli.

Það er aukinn skilningur á því að staðsetning fyrirtækja skiptir ekki öllu máli, húsnæðiskostnaður getur verið ódýrari úti á landi, en menn horfa í flutningskostnaðinn. Þess vegna hef ég lagt fram þetta frumvarp ásamt nokkrum ágætum þingmönnum í Framsóknarflokknum. Ég vonast svo sannarlega til að þetta mál fái umfjöllun og komist hér til atkvæðagreiðslu vegna þess að þá fáum við úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hverjir eru reiðubúnir að leggja sig fram og koma á fót einhvers konar reglum sem miða að því að lækka flutningskostnaðinn eða þá hverjir það eru sem segja að þeir séu til í það en eru ekki reiðubúnir að leggja neitt af mörkum.