Mannvirki

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 18:57:51 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[18:57]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að sama skapi eins og áðan þakka framlagningu þessa frumvarps til laga um mannvirki. Hér er komið í eitt frumvarp umgjörð utan um öll mannvirki. Það er búið að brjóta upp þá löggjöf sem við höfum í dag þar sem bæði skipulags- og byggingarmál eru í sömu lagaumgjörð en ég tel að þetta sé mjög til bóta.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. umhverfisráðherra um er að í þessu frumvarpi er vísað til reglugerðarsmíðar. Þetta verk er mjög flókið, tæknilegt og fer inn á mörg svið þegar öll mannvirki eru undir og vísað er til reglugerðar. Í markmiðssetningunni er m.a. sagt að markmið þessara laga sé að stuðla að aðgengi fyrir alla. Nú veit ég að mjög hefur verið beðið eftir reglugerð um aðgengi fyrir alla. Þetta atriði hefur ekki verið í brennidepli hjá okkur hvað varðar byggingarframkvæmdir og við sjáum það á gömlum húsum að það eru erfiðleikar við að koma við aðgengi fyrir alla. Það væri í sjálfu sér í lagi ef það væri ekki þannig að í dag er í nærri hverri einustu byggingu sem byggð er ekki hugað að aðgengi fyrir alla. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta reglugerðar hvað varðar einstaka þætti og þá sérstaklega þennan?