Mannvirki

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 19:03:51 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[19:03]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög að mestu leyti óbreytt, eins og ég gat um áðan í minni framsögu, en þegar við ræðum um hlutverk Byggingarstofnunar í heild held ég að það sé kannski best útskýrt með þeim hætti að við viljum stefna að því að auka gagnsæi, skilvirkni og einfaldleika en um leið gera ítarlegri kröfur um gæði og öryggi en áður hefur verið. Hvernig einstökum þáttum stofnunarinnar er fyrir komið innan hennar verður að taka afstöðu til um leið og hún stígur sín fyrstu skref frá og með næstu áramótum. Ég vænti þess að það verði gert af þeim stórhug sem málaflokknum ber um leið og við göngum hægt um gleðinnar dyr í þeirri kreppu sem nú stendur yfir. Það skiptir máli að búa þessum málaflokki almennileg og sómasamleg skilyrði vegna mikilvægis hans. Ég held að ég geti fullyrt það og fullvissað þingmanninn um að það er mikil eftirvænting í geiranum eftir því að þetta verði gert og ég er handviss um að allir þeir fagmenn sem koma að málinu muni gæta vel að því að stofnunin geti axlað þessa ábyrgð.