Mannvirki

Mánudaginn 08. mars 2010, kl. 19:05:24 (0)


138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

mannvirki.

426. mál
[19:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er á margan hátt merkilegt mál eins og það sem við ræddum fyrr á fundinum. Raunar eru bæði málin undir en ég kýs að ræða sérstaklega og nær eingöngu um mannvirkjafrumvarpið svokallaða. Hitt frumvarpið um brunavarnir liggur þokkalega vel fyrir og er í rauninni án mikilla annmarka, þær breytingar sem eru lagðar til. Hins vegar er mjög athyglisvert í kostnaðargreiningunni sem fylgir því frumvarpi að sjá þann kostnað sem sveitarfélögin hafa verið að leggja í á þeim sviðum sem þar um sýsla og þar undir heyra. Þó er eitt atriði sem ég held að nauðsynlegt sé að ræða sérstaklega í tengslum við það frumvarp. Það lýtur að gildissviði laganna gagnvart flugvöllum þar sem við höfum uppi í rauninni tvær túlkanir eða tvenns konar afstöðu, annars vegar hjá yfirvöldum samgöngumála og hins vegar hjá yfirvöldum brunamála. Í ljósi umræðunnar um öryggismál á flugvöllum landsins, sérstaklega við Reykjavíkurflugvöll, held ég að nauðsynlegt sé að taka þetta atriði sérstaklega til umræðu í meðförum nefndarinnar.

Í þessu frumvarpi er að sjálfsögðu ýmislegt rakið sem lýtur að helstu nýmælum sem því fylgja. Í andsvörum var drepið á það atriði sem skar sérstaklega í augu og laut að stjórnsýslu þessara mála og inngripi væntanlegrar Byggingarstofnunar í störf byggingarfulltrúanna. Í 18. gr. frumvarpsins kveður á um þessa skipan. Eins og hún liggur fyrir er hún að mínu mati á allan hátt aðgengilegri en áður var. Það er búið að draga beittustu tennurnar úr þeim áformum sem voru inni í frumvarpinu frá fyrri stigum.

Það sem mér finnst hins vegar sérstakt umhugsunarefni er ákvæði í 1. gr. frumvarpsins um markmið þess. Þau eru í sjálfu sér ágætlega metnaðarfull eins og þau eru orðuð þarna og líka ef maður skoðar skýringarnar við 1. gr. en a-liður 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta.:

„Að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt.“

Síðan kemur skýringin við 1. gr. en þar er, með leyfi forseta:

„fjallað um þann grundvallartilgang löggjafar um mannvirkjagerð að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi þeirra og heilnæmi sé fullnægt.“

Til viðbótar er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fleira, svo sem markmið um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Allt eru þetta góð og gild sjónarmið en í frumvarpinu sjálfu eru þau lítt útfærð og óljós á ýmsan hátt. Ef maður skoðar síðan 60. gr. frumvarpsins, um setningu reglugerða, þar sem kveðið er á um hvernig eigi að stýra ákvæðum þess með reglugerðasetningu er í rauninni ekki vikið almennilega að því hvernig nálgast eigi þessi markmið. Ég held að ástæða sé til þess að nefndin taki til umræðu hvort markmiðssetningin sé nægilega skilmerkilega útfærð í þessu annars merkilega og á margan hátt skynsamlega frumvarpi.

Varðandi helstu nýmælin ætla ég einungis að staldra við örfáa þætti. Aðskilnaður byggingarlaga og skipulagslaga er sérstaklega tiltekinn í greinargerðinni með frumvarpinu þar sem nefnt er að ákvæði sem varða staðsetningu mannvirkja tilheyri skipulagslögum sem og varðandi breytingar, útlit og form á byggingarleyfi o.s.frv. Þetta getur að vísu líka tvinnast saman í meðförum þessara tveggja nefnda sem um málin fjalla og það þarf að ganga varlega um þetta. Hins vegar er ástæða til að fagna því að hlutverk og ábyrgð eigenda mannvirkja og hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara séu skýrð og það á að hjálpa okkur við að reyna að tryggja agaðri vinnubrögð en oft hafa tíðkast í þessum málaflokki. Ég vil þó ekki að orð mín skiljist með þeim hætti að ég telji allt í drasli, eins og einhver mundi orða það. Það er langur vegur frá en ákveðin atriði þarna inni má bæta og það er vel að lagt er í það verk.

Ég staldraði líka við g-liðinn sem tiltekinn er í nýmælum og lýtur að viðskiptum með byggingarvörur. Í greinargerðinni er sagt að um sé að ræða reglur sem Ísland er skuldbundið til að hafa í sinni löggjöf og eru þær teknar efnislega óbreyttar upp úr tilskipuninni. Í ljósi þess að við höfum lent „í slysum“ með innleiðingu Evróputilskipunar held ég að það sé full þörf á því að fara vandlega yfir þennan þátt málsins og skoða hvort það sé nauðsynlegt að innleiða þetta með þeim hætti sem hér er lagt til, að þetta sé tekið óbreytt upp. Við höfum varnaðarorð m.a. nefndar á vegum Alþingis sem skilaði skýrslu um að við ættum að vara okkur hvernig við innleiddum tilskipanir sem þessar.

Ég vil líka nefna byggingaröryggisgjaldið þar sem í greinargerðinni er sagt að með því að leggja gjaldið á brunatryggingar sé gjaldtökunni dreift á allmörg ár, þ.e. allan líftíma mannvirkisins í stað þess að innheimta hærra gjald einu sinni í upphafi mannvirkjagerðar. Í þessu máli má varpa því upp hvort við getum talað um að gjaldtakan, eins og hún er lögð upp, sé ígildi skatts. Þá væri ágætt að taka umræðu um það í meðförum nefndarinnar hvaða kostir fylgja því að gera þetta með þessum hætti frekar en þeim að leggja gjaldið á einu sinni og innheimta það eins og það kemur fyrir við þá álagningu. Ég held að hægt sé að finna bæði kost og löst á hvoru tveggja.

Úrskurðir um ágreining, það eru atriði þar inni líka sem lúta að því að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála eigi að hafa með höndum úrskurði, eða að ágreiningi í þessum efnum sé skotið þangað inn, þó ekki varðandi ágreining sem lýtur að framkvæmd eftirlits frá grunni skoðunarhandbókar. Þeim þætti á að vísa til Byggingarstofnunar. Hún á að gefa bindandi álit fyrir alla aðila málsins en það þarf að skýra það, í mínum huga í það minnsta, að sú stofnun sem á að leggja grunninn og útbúa skoðunarhandbókina eigi að vera úrskurðaraðili í þessum efnum. Það hlýtur að þurfa frekari skýringa við.

Ég hef líka alltaf haft ákveðinn fyrirvara á því að stjórnsýslustofnun, eins og lagt er upp með að Byggingarstofnun verði, hafi með höndum beint eftirlit með tilteknum þáttum eins og hér er tiltekið varðandi einstaka mannvirkjagerð. Ég hef alltaf haft uppi efasemdir um að við eigum að vinna með þeim hætti að fela stjórnsýslustofnunum beint eftirlit. Ég tel að við getum lent í ákveðnum hagsmunaárekstrum innan stofnunar og gagnvart reglusetningunni þegar við kjósum að skipa málum þannig og ég hefði kosið að skoðað yrði hvort þar sé hægt að finna annan flöt á.

Ég rak augun í nokkur atriði sem varða einstakar greinar en hirði ekki um að fara nákvæmlega ofan í þau. Ég kem því á framfæri í nefndarstarfinu og kem þeim upplýsingum til formanns eða ritara nefndarinnar. Þetta eru nokkur smáatriði sem óþarfi er að velta sér mikið upp úr við 1. umr.

Stærstu athugasemdir mínar lúta hins vegar að þessari fyrirhuguðu stofnun, Byggingarstofnun, sem á að vera yfirumsjónar- og samræmingaraðili fyrir það hlutverk sem ríkinu er ætlað að sinna. Hér er lagt upp með að þessi nýja stofnun taki til starfa í upphafi ársins 2011. Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að þetta hafi í för sér ákveðin útgjöld. Þeirra mat lýtur að 184 millj. kr. á hverju ári og ástæða þess er skýrð með því að þessi fjárhæð ráðist fyrst og fremst af auknum og nýjum verkefnum Byggingarstofnunar á sviði mannvirkjamála. Ég efast ekki um að uppsetningin sé gerð með þeim hætti að svo sé og þarna er gert ráð fyrir að 29 manns vinni á hinni nýju stofnun. Þó svo að skipulagsverkefni færist frá Skipulagsstofnun til þessarar nýju stofnunar er ekki gert ráð fyrir fækkun í mannskap hjá Skipulagsstofnun ríkisins. Bein fjölgun starfa í þessari stofnun frá því sem nú er eru 14 störf. Ég segi það sem mína skoðun afdráttarlausa — og þá er ég ekki að tiltaka húsaleigukostnað eða stofnkostnað heldur eingöngu beina kostnaðarmatið í þessu sambandi upp á 184 millj. kr. — ég leggst alfarið gegn því að við vinnum þetta mál þannig að við þurfum að fjölga störfum í þessum geira. Við stöndum núna sem þingmenn frammi fyrir því gríðarlega erfiða verkefni á árunum 2011 og 2012 að skera niður ríkisútgjöld um tugi milljarða kr., sennilega samanlagt um 100 milljarða kr., og í sjálfu sér eru 184 millj. kr. ekki stórt dæmi í þeim efnum. Að sama skapi getur maður sagt að þær 184 millj. kr. sem leggjast til viðbótar útgjöldum ríkisins að öllu óbreyttu, ef þetta gengur svona fram, væri örugglega hægt að nýta í verkefni sem við sem alþingismenn mundum forgangsraða ofar en að stofna til nýrrar stofnunar. Tilmæli mín til hæstv. ráðherra og umhverfisnefndar eru þau að við reynum að skoða hvort við getum ekki gert þær áherslur sem hér eru lagðar inn að veruleika á annan hátt, hugsanlega á lengri tíma en hér er lagt til. Vel kann að vera að það sé illframkvæmanlegt en ég er þeirrar skoðunar að aðstæðurnar í dag krefjist þess af okkur að við leggjum í töluvert mikla vinnu við það verkefni.

Í þessu frumvarpi, eins og raunar í skipulagslögunum, er búið að móta ákveðna stefnu, ákveðna sýn og ákveðinn vilja til að skipa málum í ákveðinn farveg og þegar sá grunnur liggur fyrir snýst þetta um þær leiðir sem við viljum leita til að koma þessum áherslum til framkvæmda. Ég tel einboðið að í þessum efnum reynum við að finna aðra leið en þessa. Ég hef ekki upphugsað neitt í þeim efnum, enda erum við, eins og áður hefur komið fram, að ræða gríðarlegan lagabálk ef við tökum þessi þrjú frumvörp sem við höfum haft takmarkaðan tíma til að lesa af einhverju skynsamlegu viti. Ég áskil mér einfaldlega rétt til að upphugsa það í meðförum nefndarinnar. Í þessum efnum liggur fyrir að við höfum ekki gert ráð fyrir þessu í áætlunum okkar til lengri tíma, því síður á árinu 2010. Ég geri mér það ljóst að fyrri áform í því frumvarpi sem ekki náði fram á árinu 2008 voru að árlegur kostnaður ríkisins af þeim hugmyndum sem þá voru uppi mundi aukast um 355 millj. kr., ef ég man þessa tölu rétt. Ég sé því að það er búið að draga úr að verulegu leyti, ef þetta er ekki misskilningur, og auðvitað ber að fagna því. Lokaorð mín við þessa umræðu með framlagningu þessarar ræðu minnar við 1. umr. um frumvarpið um mannvirkin eru þau að hvetja eindregið til þess að við reynum að vinna því framgang án þess að auka útgjöldin eins og hér er lagt til.