Fjölmiðlar

Þriðjudaginn 09. mars 2010, kl. 15:16:22 (0)


138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður áhugavert og mikið verkefni að fara í gegnum þetta mál í menntamálanefnd en við erum tilbúin í þessi stóru verkefni. Það sem ég hins vegar vildi gjarnan spyrja hæstv. menntamálaráðherra um er útgjöld ríkissjóðs. Hér er talað um að þau gætu aukist um 28 millj. kr. á ári að frádregnum fjárheimildum vegna útvarpsréttarnefndar og stöðugildis hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Einnig er gert ráð fyrir 3,5 millj. kr. stofn- eða upphafskostnaði fyrsta árið. Hefur ráðherrann einhverjar áætlanir um það hvar hún ætlar að skera niður annars staðar í ráðuneytinu til að dekka þennan kostnað? Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra eru boðaðar ýmsar breytingar á umgjörð ríkisfjármála, m.a. að útgjaldarammar ráðuneyta verði bindandi og ekki breytt eftir á nema með jafnmikilli lækkun annarra málaflokka.