Fjölmiðlar

Þriðjudaginn 09. mars 2010, kl. 15:31:25 (0)


138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðustu athugasemd hv. þingmanns eru auðvitað ákveðnar reglur í gildi þar sem við höfum undirgengist tilskipanir sem tilheyra EES-samningnum, til að mynda um hlutfall af evrópsku efni og öðru slíku, og hins vegar er hér verið að styrkja vernd barna, þetta bann við hatursáróðri og ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ég veit að uppi eru mjög mismunandi skoðanir á því hversu mikið eigi að stýra fjölmiðlum og þetta er auðvitað tilraun til að setja ákveðinn ramma um starf fjölmiðla.

Hvað varðar stofuna, þá segi ég líka að mér finnst við í raun og veru ekki hafa efni á að gera þetta ekki. Mér finnst það mjög mikilvægt mál að við fáum þessa löggjöf fram, þessa heildstæðu löggjöf. Hún gæti líklega verið rekin með hagkvæmari hætti innan ráðuneytisins en hins vegar er mikil áhersla lögð á það í allri umræðu að slík stofnun sé sjálfstæð, stjórnsýslulega sjálfstæð og lúti ekki boðvaldi, þ.e. (Forseti hringir.) beinu boðvaldi ráðherra. Hvað varðar eignarhaldið tel ég að ég hafi farið yfir það áðan.