Fjölmiðlar

Þriðjudaginn 09. mars 2010, kl. 16:43:36 (0)


138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[16:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki ný spurning enda hefur verið deilt um þetta tilvik frá því að það kom upp. Það má segja sem svo að spurningin snúist í raun um það hvort telja megi þær umræddu myndir vera hatursáróður eða hvort líta eigi á þær sem grín. Það eru í raun og veru sjónarmiðin sem tekist hafa á. Kannski hefur mér fundist skynsamlegasta nálgunin á þetta tilvik — það er ekki hægt að banna myndir af þessu tagi, í okkar menningarheimi er litið á þetta sem grín, skop eða spaug. En það skiptir líka máli að fólk sýni ákveðna kurteisi og það er eitthvað sem við lögfestum ekki heldur höfum í okkar hefðum og getum gagnrýnt.

Ég hefði leyft mér að gagnrýna þessa myndbirtingu sem almennur borgari af því að þetta er óþarfaókurteisi gagnvart trúarbrögðum annarra menningarheima. En ég lít ekki svo á að þetta eigi að banna. Ég tel þetta ekki til hatursáróðurs eins og hann hefur verið skilgreindur hingað til í lögum. Þetta snýst annars vegar um lög og hvað við setjum í lög og hins vegar um það hvernig við umgöngumst hvert annað almennt í samfélaginu.