Jarðgasvinnsla við Norðausturland

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:31:08 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

jarðgasvinnsla við Norðausturland.

[15:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég þessa fyrirspurn og athugasemdir. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þarna þarf að ráðast í mjög öfluga atvinnuuppbyggingu. Einnig er það mikilvægt fyrir þjóðarbúið allt. Þetta snýst ekki bara um þetta svæði, það er þjóðarbúið allt sem þarf á því að halda. Það þarf auðvitað að gera þetta með skynsamlegum hætti. Eitt sem á eftir að gera á þessu svæði, sem hefur verið gert á Drekasvæðinu, er að meta hvaða áhrif olíuleit eða olíuvinnsla hefði á umhverfið. Sá þáttur er að mestu leyti eftir á meðan að á Drekasvæðinu hefur verið ráðist í mjög umfangsmikið svokallað umhverfismat áætlana. Það hefur hefur farið þar fram, en Gammasvæðið er styttra á veg komið hvað slík atriði varðar.

Ég ítreka að þetta mál er enn þá uppi á borði. Því hefur ekki verið ýtt til hliðar og ég geri ráð fyrir því að eiga um þetta samtal við sveitarstjórnarmenn á svæðinu (Forseti hringir.) fyrr en síðar.