138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í sumar voru sett ný lög um sparisjóðina þar sem fitjað var upp á því nýmæli að opna heimildir til að færa niður verðmæti stofnfjár í sparisjóðunum. Við vöruðum mörg hver eindregið við þessu og bentum á að þetta gæti bæði haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sparisjóðakerfið og líka fyrir stofnfjáreigendurna sjálfa, þúsundir manna, venjulegt fólk úti um allt land. Fyrstu viðbrögðin voru þau að segja sem svo við 2. umr. málsins: Nei, þetta er nokkuð sem við skoðum núna milli 2. og 3. umr. málsins í nefndinni og við munum finna á þessu lausnir. Síðan kom 3. umr. og ekkert gerðist. Þá sögðu menn til að friða samvisku sína: Þetta er bara eitthvert vandamál sem bíður betri tíma að skoða lausnirnar á. Það ætlum við að skoða þegar við sjáum framan í alvöru málsins.

Nú er hún að birtast okkur og nú verður ekki lengur undan vikist. Nú er ekki lengur hægt að horfa fram hjá því að afleiðingar þessarar lagasetningar og stöðunnar sem uppi er í sparisjóðakerfinu eru að hellast yfir venjulegt fólk úti um allt land. Undanfarin kvöld hafa verið fluttar af því frásagnir í fréttum Stöðvar 2 hvernig þetta birtist m.a. í Húnaþingi vestra og við Hrútafjörð. Nú er þess vegna mjög mikilvægt að átta sig á því hvernig stjórnvöld hyggjast bregðast við þessum vanda. Það var margfarið yfir það hvaða afleiðingar þetta gæti haft. Það var margoft bent á að það er grundvallarmunur á stofnbréfum í sparisjóðum og hlutabréfum. Stofnbréfin endurspegla ekki innra virði fyrirtækjanna eða mögulegt markaðsverð. Stofnbréfin eru hugsuð þannig að menn borga ákveðna upphæð og síðan er verðmætið framreiknað með vísitölu. Það er á þessu grundvallarmunur en það vildi stjórnarliðið ekki hlusta á og nú stöndum við frammi fyrir þessum alvarlega vanda sem heimilin í landinu, þúsundir manna úti um allt land, heilu héruðin, hafa miklar áhyggjur af.

Þess vegna vildi ég leyfa mér að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram sem var varaformaður viðskiptanefndar í fyrrasumar þegar þessi mál voru rædd og tjáði sig mikið um þetta: (Forseti hringir.) Hvernig horfa menn á þetta frá sjónarhóli stjórnvalda? Verður brugðist einhvern veginn við? Verður reynt að koma til móts við þessi heimili eða telja (Forseti hringir.) stjórnvöld að þau hafi ekki frekari skyldur en þau hafa í dag? Hafa þau ekki skyldur til að bregðast við afleiðingum af lagasetningu sem kom frá ríkisstjórninni?