138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

málefni banka og sparisjóða -- staða námsmanna -- atvinnumál og lífeyrissjóðir.

[14:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þverpólitískri samstöðu um að nýta svigrúm bankanna til að leiðrétta skuldavanda heimilanna. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir þessu í meira en eitt ár, stundum fengið á baukinn en við höfum þverskallast við og sýnt þrautseigju. Ég sé ekki betur en að málflutningur okkar — og fleiri þingmanna, svo öllu sé haldið til haga — sé að skila árangri. Það er samt eitt sem ég vil koma inn á og það er að hér koma þingmenn Samfylkingarinnar upp og tala um samstöðu og um leið beina þeir spjótum sínum að öðrum.

Gefum okkur að Samfylkingin sé bílstjóri í rútubifreið. Allir eru sammála um að leggja þurfi á heiðina, það sé óveður í vændum, atvinnuleysi, atvinnulífið sé stopp, heimilin eigi í vanda og allir farþegarnir segja við bílstjórann: Viltu ekki bara leggja af stað? Þú stjórnar ferðinni, þú ert með forsætisráðuneytið. En hvað gerir bílstjórinn? Hann segir: Jú, ég er algjörlega sammála ykkur. Það þarf að gera alla þessa hluti, bendir á lífeyrissjóðina, bendir á Samtök atvinnulífsins, bendir á ASÍ. Á meðan kalla einhverjir aðilar aftur í: Eigum við ekki bara að leggja af stað? Hvað er með þessa ríkisstjórn? Af hverju gerist ekkert? En enn á ný hallar bílstjórinn sér aftur og segir: Þetta er alveg hárrétt hjá ykkur.

Nú spyr ég þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa sýnt mikla snilli í samræðupólitík: Hvernig væri að fara að láta verkin tala? Hvernig væri að láta þjóðina sýna (Forseti hringir.) hverjir hafa völdin, hverjir geta raunverulega látið eitthvað fara af stað?