Kjaramál flugvirkja

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 16:46:23 (0)


138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði að verkfallsrétturinn væri neyðarréttur og hefði verið það í upphafi síðustu aldar. Hann hefur hins vegar breyst í það að vera nánast oft og tíðum ofbeldi gagnvart þriðja aðila. Ég kalla það ofbeldi þegar maður er búinn að bóka ferð til Íslands og kemst ekki. Ég kalla það ofbeldi þegar hótel úti á landi er búið að bóka hjá sér heilan hóp af ferðamönnum sem afbókar vegna aðgerða þessara aðila. Fólk upplifir þetta sem ofbeldi.

Menn eru að sjálfsögðu í samkeppnisrekstri, en þessi verkföll koma niður á þriðja aðila, vantraustinu á ferðaþjónustunni o.s.frv.

Það eru dálítið neyðarleg örlög þessarar svokölluðu velferðarstjórnar að lenda í því að setja lög á verkföll. Það virðist einhvern veginn loða við vinstri stjórnir. Það gerðist líka í eina tíð fyrir langalöngu að aftur og aftur voru lög sett á verkfall eða verkbann eða skertir kjarasamningar háskólamanna.

Menn þurfa alltaf að skoða það umhverfi sem þeir lifa í. Nú erum við með ákveðna stöðu á Íslandi sem er einsdæmi og fordæmalaus þar sem fólk þarf að horfa upp á skerðingu launa og atvinnuóöryggi. Menn eru að missa vinnuna. Á sama tíma hlýtur að vera mjög erfitt fyrir þetta fólk að horfa upp á aðila sem neita 11% launahækkun, eru með atvinnuöryggi, búa sem sagt ekki við yfirvofandi atvinnuleysi, og þurfa sjálft jafnvel að líða fyrir það vegna þess að hótelin sem það starfar hjá eða ferðaskrifstofan eða hvað það nú er ræður ekki við að halda sama rekstri og áætlað var. Það er þetta umhverfi sem menn þurfa að horfa til, líka stéttarfélög.