Lánsfjárþörf ríkissjóðs

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:26:41 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

lánsfjárþörf ríkissjóðs.

[17:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ýmsar fullyrðingar ganga nú um í samfélaginu. Ein er sú að við þurfum að klára Icesave áður en ráðist verður í atvinnuuppbyggingu, það sé forsenda þess að hægt verði að sporna við frekara atvinnuleysi og til að koma ýmsum framkvæmdum af stað. Menn greinir á um þetta en ég get verið sammála þeim sem segja að Icesave standi í vegi fyrir því að ríkissjóður, Landsvirkjun og ýmis einkafyrirtæki geti endurfjármagnað sig. (Gripið fram í: Segðu okkur frá því.)

Því hefur verið svolítið haldið á lofti að ríkissjóður þurfi á lánum að halda, sérstaklega frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, til að ráðast í þessa atvinnuuppbyggingu. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hver lánsfjárþörf ríkissjóðs sé árlega næstu 3–4 árin. Ég hef beint þessum spurningum til seðlabankastjóra sem viðurkenndi að lánsþörfin væri miklum mun minni en áður var talið en hann var ekki alveg með á hreinu hver þörfin væri. Sama má segja um hæstv. fjármálaráðherra sem kom fyrir fjárlaganefnd um daginn. Menn eru sammála um að ríkissjóður hefur sparað sér gríðarlegar fjárhæðir, milljarða eða jafnvel tugi milljarða, á því að hafa ekki tekið öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beindi til hans á sínum tíma.

Ég held að það sé mjög mikilvægt til að fá skýrari mynd á umræðuna að við reynum að fá á hreint hver lánsfjárþörf ríkissjóðs er. Ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra getur skýrt þá mynd fyrir mér (Forseti hringir.) væri það vel þegið.