Lánsfjárþörf ríkissjóðs

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 17:29:02 (0)


138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

lánsfjárþörf ríkissjóðs.

[17:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni. Því er til að svara að við getum væntanlega skipt lánsfjárþörf í tvennt, annars vegar þá sem kemur til vegna hallarekstrar á ríkissjóði og svo hins vegar lánsfjárþörf vegna þess að lán koma á gjalddaga og þau þarf að endurnýja með nýju lánsfé.

Varðandi fyrri liðinn hefur til þessa yfirleitt verið unnið með töluna 500 milljarðar kr. sem eru þá uppsafnaður fjárlagahalli áranna 2009–2012 eins og hann var áætlaður þegar efnahagsáætlun landsmanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var samin haustið 2008. Á það er þó rétt að benda að með nýjum tölum sem bárust frá Hagstofunni fyrir nokkrum dögum sem bentu til þess að hallinn á rekstri ríkissjóðs á síðasta ári hefði verið rúm 8% af landsframleiðslu og við það má bæta u.þ.b. 1 prósentustigi vegna sveitarfélaga, sem er talsvert minna en gert var ráð fyrir í upphaflegri efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda, virðast einhver teikn á lofti um að þessi tala, 500 milljarðar kr., sé of há. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða hversu miklu lægri hún ætti að vera. Auðvitað vonum við að hún verði sem lægst.

Það má hafa í huga í þessu samhengi að á þessa upphæð, hvort sem hún er 500 milljarðar kr. eða eitthvað aðeins lægri, má líta sem framlag ríkissjóðs, að vísu á kostnað framtíðarskattgreiðenda, til að örva hagkerfið á samdráttartímum.

Þessu til viðbótar koma, eins og ég nefndi áðan, lán sem þarf að endurfjármagna. Þau eru auðvitað bæði innlend og erlend. Þau erlendu eru margs konar en menn hafa horft mjög mikið til lána sem koma á gjalddaga í lok næsta árs og upphafi þess þarnæsta upp á rúman milljarð evra. Það er stærsti einstaki erlendi reikningurinn sem við þurfum að endurfjármagna en til viðbótar koma síðan fjölmörg innlend lán og mun smærri erlend lán sem ég get kannski komið betur að í seinna skipti sem ég fer hér upp í dag.