138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkur umræða hefur spunnist um sjávarútvegsmál þessa vikuna að gefnu tilefni, litlu frumvarpi sem var afgreitt í þinginu og snertir skötusel. Full ástæða er fyrir okkur að taka af því tilefni umræðuna og láta þessi viðbrögð verða okkur hvatning til að ganga til verka í sjávarútvegsmálunum.

Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að fagna yfirlýsingum forsætisráðherra um að full ástæða sé til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég held að það standi upp á okkur hér að leggja fyrir þjóðina skýra valkosti í því efni. Eins og við vitum hefur fylgi við þjóðaratkvæðagreiðslur í þinginu aukist mjög og ég held að a.m.k. í stjórnarandstöðunni sé ekki að finna nokkurn mann sem gerir annað en að styðja það sem leið til að ráða mikilvægum hagsmunamálum til lykta. Ég hygg að það sé ríkur vilji í stjórnarliðinu til að gera það líka.

Ég held enn fremur að þetta gefi okkur tilefni til að skoða hvort taka eigi frekari skref eins og með skötuselinn, þá til að mynda með makrílinn og arðinn af honum þegar honum er úthlutað til veiða. Hann er fiskur sem ekki er kominn í kvóta. Það er full ástæða til að ræða um hvernig eigi að fara með aukningu í öðrum tegundum en skötusel og hvert arðurinn af slíkri aukningu, sem gæti kannski verið tækifæri til að ráðast í, eigi að renna. Ég held að þessi málefni séu sannarlega mjög í deiglunni og fagna enn og aftur tillögum forsætisráðherra um að við látum þetta í brennipunkt. Þetta hefur klofið þjóðina hér og samt hefur mikill hluti hennar viljað breytingar á þessu fyrirkomulagi í heilan aldarfjórðung. Það er ástæða til að skapa tækifæri í landinu fyrir þann mikla meiri hluta þjóðarinnar til að gera þær breytingar sem gera þarf í greininni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)