138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því að í máli stjórnarliða hefur borið á því að menn segja sem svo: Hv. þingmenn, hvers vegna eru þessi læti út af þessum skötusel? Það er ekki um svo mörg tonn að ræða, hvers vegna ættum við að æsa okkur eitthvað yfir þessu? Hvernig stendur á því að Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að segja upp stöðugleikasáttmálanum? Hvernig stendur á því að forustumenn ASÍ setja jafnmikið í brýrnar og þeir gera nú og skamma ríkisstjórnina fyrir framgöngu hennar?

Svarið er að þetta snýst ekkert um örfá kíló eða tonn af skötusel. Þetta snýst um það meginprinsipp sem hefur verið í fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga að við höfum haft hlutdeildarkerfi sem byggir á því að þegar afli er skorinn niður geta þeir sem er skorið niður hjá gengið að því vísu að þegar hægt er að auka aflann aftur muni þeir fá til baka það sem niður var skorið. Þetta er grundvallaratriði. Menn geta rifist fram og til baka um hvort skynsamlegt sé að leyfa mönnum að selja eða kaupa kvóta. En ég held að þetta sé sá þáttur fiskveiðistjórnarkerfisins sem flestir geta verið sammála um að ýtir undir skynsamlega og ábyrga nýtingu fiskstofnanna. Það eru þessi atriði, frú forseti, sem er búið að kippa úr sambandi með skötuselsfrumvarpinu, það er með þessari gjörð sem óvissan í sjávarútvegi hefur verið aukin. Þetta snýst nefnilega ekki, frú forseti, um örfá kíló af skötusel, þetta snýst um meginprinsipp.

Ég vil fá að nefna eitt atriði í viðbót, fjármál flokkanna. Mér hefur fundist sumt sem hér hefur verið sagt svolítið undarlegt, svo ekki sé meira sagt, og allt að því ósmekklegt. Ég verð að segja eins og er að mér þótti það nokkuð hvasst sem komið hefur fram af hálfu sumra hv. þingmanna Samfylkingarinnar hér og ég held að þeir hv. þingmenn ættu að velta fyrir sér hvort menn geti fundið skýringu á því hvaða afstöðu þessi flokkur hafði í fjölmiðlafrumvarpinu hér (Forseti hringir.) þegar við fengumst við það að reyna að koma fjölmiðlum á Íslandi í eðlilegt horf. Skyldi hafa verið samhengi á milli (Forseti hringir.) þess hver var einna duglegastur við að styrkja Samfylkinguna á þeim tíma eða var (Forseti hringir.) ekki samhengi þarna á milli? Það er verðugt rannsóknarefni, (Forseti hringir.) frú forseti. [Kliður í þingsal.]