Markaðsleyfi fyrir lyf

Miðvikudaginn 24. mars 2010, kl. 18:40:34 (0)


138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

markaðsleyfi fyrir lyf.

421. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er bjargföst trú mín að samkeppni sé besta tækið til að lækka verð. Það er vonandi óþarfi að færa á það sérstakar sönnur en ég vil þó nefna þau áhrif sem samkeppni í flugi til og frá landinu hefur haft á flugfargjöld á undanförnum árum og einnig þau áhrif sem samkeppni í fjarskiptaþjónustu hefur haft á verðlag fyrir þá þjónustu. Í því sambandi er litið til þess að gengisbreytingar hafa hækkað öll þessi verð en engu að síður væri verðlag miklu hærra í dag ef þessi samkeppni hefði ekki komið til.

Á undanförnum árum hefur samkeppni aukist á lyfjamarkaði hér á landi og haft í för með sér lækkun á lyfjaverði. Ég er þeirrar skoðunar að enn megi auka samkeppni á þeim markaði og knýja þar með fram frekari verðlækkanir eða koma inn á markað lyfjum sem eru ódýrari en þau sem eru á markaði nú. Flóknar öryggisreglur gilda um verslun með lyf, sem er eðlilegt því að lyf eru hættuleg efni, og til þess að þau komist á markað þurfa þau að fá tilskilin leyfi sem veitt eru af Lyfjastofnun. Mér virðist það gefa augaleið að því fyrr sem þeir sem vilja flytja lyf til landsins og selja þau hér fá tilskilin leyfi, því virkari verði samkeppnin.

Nú vill svo til að á heimasíðu Lyfjastofnunar birtist þann 27. mars 2009 tilkynning þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að fjölgun og aukið umfang verkefna hefur þau áhrif á starfsemi Lyfjastofnunar að stofnunin mun þurfa að nýta sér setta tímafresti í mun meira mæli en verið hefur. Að óbreyttu er fyrirséð að þeim verkefnum mun fjölga sem ekki næst að vinna innan tilskilinna tímamarka.“

Á sama tíma hefur stofnunin í auknum mæli tekið að sér verkefni sem ekki eru lögboðin og í tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar þann 13. maí 2009 birtist eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Lyfjastofnun hefur nýlega tekið að sér hlutverk viðmiðunarlands í DC-ferlum fyrir lyf. Hingað til hafa Lyfjastofnun borist fleiri óskir en stofnunin getur annað miðað við núverandi stöðu.“

Virðulegi forseti. Ekki vil ég gera lítið úr því að íslensk fyrirtæki og stofnanir taki að sér ný verkefni. En ég er þeirrar skoðunar að ríkisstofnanir eigi ekki að taka að sér slík verkefni nema þær anni lögboðnum verkefnum sínum. Þess vegna hef ég beint eftirfarandi spurningum til heilbrigðisráðherra:

1. Hve margar umsóknir um markaðsleyfi fyrir lyf liggja hjá Lyfjastofnun?

2. Hversu margar þessara umsókna um markaðsleyfi hafa beðið afgreiðslu Lyfjastofnunar umfram lögboðinn tímafrest?

3. Hver er áætlaður árlegur sparnaður af því ef markaðsleyfi þessara lyfja yrðu afgreidd innan lögboðins tímafrests?