Bólusetningar og skimanir

Miðvikudaginn 24. mars 2010, kl. 18:52:17 (0)


138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

bólusetningar og skimanir.

419. mál
[18:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum bólusetningum og skimunum vegna smitsjúkdóma og krabbameina?

Hér er um nokkuð yfirgripsmiklar spurningar að ræða og eins og heyra mátti talaði hv. þingmaður býsna hratt og reyndi að koma sem mestu að á sem stystum tíma. Ég lofa ekki að ég geti svarað öllum fyrirspurnum hv. þingmanns en almennt vil ég taka mjög skýrt fram að það er staðföst skoðun mín að bólusetningar hafi verið og séu besta heilsuvörnin og einhver gagnmesta og hagkvæmasta aðgerð í heilbrigðismálum hérlendis sem erlendis á undanförnum árum og áratugum. Sífellt hafa komið fram ný bóluefni og þau hafa verið tekin í notkun hér á landi eftir því sem við hefur átt og í ljósi þess hvaða sjúkdómar hafa helst herjað á hér á landi á hverjum tíma.

Ég hef nýlega fengið, eftir ósk, stöðumat frá sóttvarnalækni og sóttvarnaráði um stöðu þessara mála. Samkvæmt þeirra mati er ekki ráðlegt að gefa neitt eftir í þeim bólusetningum sem nú bjóðast, sem eru gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa, lömunarveiki, heilahimnubólgu, hemófílus inflúensu B og meningókokkum. Þá hefur áhættuhópum einnig verið boðin bólusetning gegn árstíðabundinni inflúensu. Það er skoðun sóttvarnaráðs að þetta séu lágmarksbólusetningar sem við þurfum að bjóða upp á og það stendur ekki til að gera breytingar á því.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega bólusetningu við tveimur mjög algengum og alvarlegum sýkingum sem bent er á í skýrslu sem hv. þingmaður vitnaði til og unnin var á vegum heilbrigðisráðuneytisins, kom út haustið 2008 og var yfirfarin með tilliti til kostnaðar snemma á árinu 2009. Annars vegar er um að ræða bólusetningu gegn pneumókokkasjúkdómi, þ.e. lungnabólgubakteríum, og hins vegar HPV eða veirum sem taldar eru valda leghálskrabbameini. Ég tel tímabært að við reynum allt hvað við getum til að fylgja ábendingum sem fram koma í þessari skýrslu um að hefja bólusetningu gegn lungnabólgubakteríum, pneumókokkum. Það er bólusetning sem er yfirleitt gefin við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur og verndar gegn fjölda sýkinga sem þessar bakteríur geta valdið. Hér á landi hafa verið til tvö mismunandi bóluefni gegn þessum sjúkdómi en búast má við því að innan tíðar verði skráð hérlendis nýtt bóluefni, 13-gilt, með mögulegri öflugri verkan gegn þeim sjúkdómum sem algengastir eru af völdum pneumókokka eða lungnabólgubaktería og þetta lyf verði því með öflugri verkan en þau bóluefni sem hafa verið hér á markaði. Að mati sóttvarnaráðs er áætlaður kostnaður við að hefja bólusetningu gegn pneumókokkasjúkdómum á bilinu 125–140 millj. kr. á ári. Ég hef fullan hug á því að leita leiða til þess að koma þessu á við fyrsta tækifæri. Það er mat sóttvarnaráðs og þessarar skýrslu að þessi bólusetning ætti að vera í forgangi.

Önnur bólusetning sem hv. þingmaður nefndi einnig og er mikilvæg gegn veirum sem taldar eru valda leghálskrabbameini, HPV-bólusetning, er talin ámóta kostnaðarsöm, þ.e. 125–139 millj. kr. á ári hverju. Verið er að kanna frekari möguleika á þessari bólusetningu. Það er með HPV-bólusetningu eins og bólusetningu gegn hlaupabólu, sem verið er að meta kostnaðarhagkvæmi á, að menn telja að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt. Báðar þessar bólusetningar eru hins vegar flóknar og mega ekki hafa áhrif á þætti eins og skimun fyrir krabbameini vegna þess að þetta er ekki eini sjúkdómsvaldurinn. Það að bjóða upp á bólusetningu má ekki draga úr skimuninni.

Frú forseti. Ég fæ kannski tækifæri til að koma aðeins frekar að þessu í seinna svari mínu en ég tel að nýjar bólusetningar gegn þeim tveimur sjúkdómum sem ég hef nefnt, sérstaklega lungnabólgubakteríunum, sé fjárfesting í betra heilbrigði þjóðarinnar til frambúðar. Ég tel það sé mikilvægt á þessum tímum niðurskurðar að horfa til þeirra tækifæra, því að bólusetningar koma ekki aðeins í veg fyrir þjáningu og dauða heldur valda þær minna álagi á heilbrigðisþjónustunni og langtum minni lyfjanotkun.