Sanngirnisbætur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 11:44:54 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:44]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Fyrir 55 árum, þegar ég var tíu ára gamall, grét ég mig oft og iðulega í svefn þar sem ég var staddur á opinberri stofnun, yfir því órétti sem ég var beittur. Stundum var ég barinn, aldrei þó mikið þegar horft er um öxl, en mér fannst barsmíðin ærin og meiri en nóg á þeim tíma. Ég man það enn að þær stundir sem ég lá milli svefns og vöku og tárfelldi hét ég sjálfum mér því að gera allt sem í mínu valdi stæði þegar ég næði að fullorðnast til þess að sjá til þess að börn væru ekki beitt ofbeldi og valdi og óréttlæti af hálfu fullorðinna.

Þess vegna finnst mér skáldlegt réttlæti fólgið í því að fá að vera í hópi þingmanna sem veita því frumvarpi stuðning sem hér hefur verið borið fram. Mitt hlutskipti í æsku og mín kynni af opinberum rekstri á stofnunum fyrir börn og unglinga var með því besta, held ég, sem þá tíðkaðist. Mín reynsla var góð að því leyti að ég var ekki vistaður með opinberu valdboði heldur var ég vistaður vegna þess að sá staður sem ég dvaldi á var félagslegt úrræði handa brotinni fjölskyldu sem var í vanda. Sú meðferð sem ég fékk var eiginlega lúxusmeðferð miðað við það sem tíðkaðist á þeim árum. Engu að síður gleymi ég aldrei þessari dvöl, þetta er lengsti og kaldasti vetur æsku minnar og hefur mótað mig sem manneskju sennilega meira en sjálfan mig grunar, og finnst mér þó að ég sé farinn að kynnast sjálfum mér býsna vel.

Ég fagna innilega þeirri mannúð og þeim vilja til að hnika þjóðfélaginu í framfaraátt sem kemur fram í þessu frumvarpi. Mannlegri gæsku eru engin takmörk sett. Það er ástæða þess að manneskjan hefur trú og vilja til að lifa áfram og til að lifa af. Á sama hátt eru því miður mannlegri illsku engin takmörk sett. Það er hlutverk okkar að gera það sem í okkar valdi stendur til að takmarka tækifæri illskunnar til að blómstra.

Við getum aldrei bætt skaða og sárindi á annan hátt en með því að reyna að hnika samfélaginu okkar í framfaraátt. Með táknrænum aðgerðum getum við þó bætt fyrir fornar misgerðir og mér þótti innilega vænt um þegar forsætisráðherra baðst afsökunar á þeirri misbeitingu sem börn unglingar hefðu orðið fyrir á stofnunum ríkis og sveitarfélaga fyrir hönd ríkisstjórnar og þjóðarinnar allrar. Sú afsökunarbeiðni nægir mér, ekki síst þegar verkin fylgja á eftir og verkin tala, þ.e. frumvarp á borð við þetta sem sýnir einlægan vilja til að bæta fyrir fyrri misgerðir, læra af mistökum og reyna að halda áfram þannig að framtíðin verði betri og bjartari.

Mér finnst það skáldlegt réttlæti að fá að greiða þessu frumvarpi atkvæði mitt og ég þakka innilega forsætisráðherra og öðrum sem að þessu stóðu. Sömuleiðis þakka ég þeim hv. þingmönnum sem munu leggja þessu frumvarpi lið.