Lífeyrisréttindi

Fimmtudaginn 15. apríl 2010, kl. 11:02:12 (0)


138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

lífeyrisréttindi.

[11:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér stóru máli sem erfitt er að svara ítarlega til um á tveimur mínútum. Það er því miður alveg rétt að það stefnir í að margir af almennu lífeyrissjóðunum verði að skerða réttindi á þessu vori einfaldlega vegna þess að nú er áfallið að koma fram og töp lífeyrissjóðanna vegna efnahagshrunsins eru að birtast. Þannig eru afskriftir hjá þeim vegna tapa í fyrirtækjum og öðru slíku að koma fram í meira mæli nú en áður var og það stefnir þar af leiðandi í sársaukafulla skerðingu á réttindum.

Í öðru lagi vil ég upplýsa og segja að málefni lífeyrissjóðakerfisins í heild eru komin í endurskoðun, þ.e. nefnd hefur hafið störf sem er skipuð fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila. Þetta er á grundvelli samstarfsins í stöðugleikasáttmálanum að ákveðið var að setja öll málefni lífeyrissjóðakerfisins í heild í skoðun og horfa þar til framtíðar. Ég held að öllum sé ljóst að það þurfi áætlun til langrar framtíðar til að takast á við vandamál sem þar eru og reyna að setja einhvers konar tímasetta áætlun í gang sem miði að því að jafna réttindin í þessu kerfi og gera það sjálfbært til framtíðar bæði opinbera lífeyrissjóðakerfið og hið almenna.

Hv. þingmaður nefndi lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna og þar hefur þó verið tekið til, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viðurkenni að öll forréttindi í þeim efnum hafa verið afnumin með lögum, þó að það standi sérstaklega í hv. þingmanni hver var niðurstaðan með það hvar menn tækju lífeyrisréttindi eftir það, en um forréttindi er ekki lengur að ræða eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viðurkenni.

Varðandi fjölmörg önnur mál, svo sem eins og fyrirkomulag stjórnar í lífeyrissjóðum og annað því um líkt, gefst ekki tími til að ræða það í hörgul. Ég minni á að lífeyrissjóðirnir eru í grunninn þannig til komnir að þeir byggja á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um að byggja upp sparnaðarsjóði til að greiða lífeyrisréttindi og það var ein mesta gæfa Íslendinga á þeim árum að fara inn á þá braut 1970. (Forseti hringir.) Við erum þar af leiðandi ekki með sama vanda fram undan í þeim efnum hvað varðar breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og lífeyrisréttindi á komandi áratugum eins og flestar aðrar þjóðir.