Olíugjald og kílómetragjald

Fimmtudaginn 15. apríl 2010, kl. 16:24:49 (0)


138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

olíugjald og kílómetragjald.

531. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar sú kerfisbreyting var tekin upp að nota litaða olíu til að skattleggja eða losa hana undan skattlagningu, benti ég á það ítrekað að þetta mundi leiða til þess að þetta yrði misnotað. Það er þekkt um alla Evrópu að þetta er misnotað. Ég átti ekki von á að þetta yrði svona fjörlegt eins og það á endanum var. Hér er ríkið að reyna að bregðast við því með því að auka refsingar, auka þær um 50%, og með því að gera alla slíka ferla rekjanlega, þ.e. að það yrði ekki greitt með peningum, þ.e. að menn skuli borga núna með korti þannig að hægt sé að rekja það hverjir eru að kaupa og hvernig. Ég hugsa að það taki svona tvær, þrjár vikur fyrir atvinnulífið og einstaklinga sem stunda þetta að finna á þessu lausn þannig að þeir geti komist fram hjá þessu. En þetta er eitthvað sem við búum við, menn eru því miður oft tilbúnir til að svindla á slíkum kerfum, frú forseti, og það er ekkert annað en siðrof, það býr til siðleysi. Auðvitað eiga kerfi að vera þannig að menn geti það ekki.

Þá kem ég að því sem ég vil að svarað verði í nefndinni, því að það var rætt þar töluvert mikið á sínum tíma að þetta yrði til skamms tíma, til ársins 2011, því að þá ætlaði Evrópusambandið að vera komið með mæla í bílana, GPS-mæla sem senda SMS-skilaboð einu sinni á dag um notkunina á vegunum sem mundi spara óhemju mikið, t.d. í innheimtu gjalda fyrir Hvalfjarðargöngin. Það þyrfti ekki að hafa neinn mannskap þar, því að þessi GPS-mælir mundi strax sjá það þegar menn keyra þar í gegn og bóka það af reikningum þeirra samtímis. Sama er með bílastæðin hérna í bænum, það þyrfti enga stöðumælaverði, enga stöðumælasúlur eða neitt slíkt, heldur bara um leið og menn leggja í ákveðið stæði tikkar þar sjálfvirkt upp í gervitunglin mæling á því að menn séu þarna og þeir borga stöðumælagjald. Þetta leysir mjög margt. Svo er hægt að hafa t.d. mismunandi gjald eftir tíma dags, hærra gjald á morgnana kl. 8 eða 9 þegar vegirnir eru yfirfullir. Svo er hægt að hafa t.d. lægra gjald á malarvegum, af því þeir eru ekki eins dýrir og þar er ekki eins góð þjónusta, og þegar mikil snjóþyngsli eru væri það jafnvel gjaldfrjálst.

Þetta gefur því ýmsa möguleika, en það er önnur hlið á medalíunni sem menn óttast náttúrlega sem er stóri bróðir sem hér er verið að setja í gang, þ.e. með rafrænum samskiptum. Stóri bróðir veit nákvæmlega hvar bíllinn er staddur á hverjum tíma, sem mér líður dálítið illa með, frú forseti, ég er bara þannig. En það sem þetta hefur líka í för með sér og er kostur er það að ég mundi vita hvar bíllinn minn er hverju sinni, það er ekki hægt að stela honum. (Gripið fram í.) Eða ef ég gleymi honum einhvers staðar. Það skyldi nú ekki vera að ég gleymi honum einhvers staðar á bílastæði og hann tikki þar áfram. Þá get ég farið í tölvuna, það er hægt að gefa þann möguleika að menn geti farið í tölvuna og kíkt á hvar bíllinn þeirra er. Ef honum verður stolið veit ég nákvæmlega hvar hann er og ef þjófurinn ætlar að rífa þetta tæki úr, veinar það rétt áður en það er rifið úr. Það sendir skilaboðin, nú er verið að rífa mig úr sambandi. Þetta býður upp á ýmsa möguleika en það eru náttúrlega persónuverndarsjónarmiðin sem eru verst, því að þeir sem fylgjast með þessu kerfi mundu vita nákvæmlega hvar ég er staddur, þeir vita reyndar ekki hvað ég er að gera en þeir vita hvar ég er staddur og hvar bílnum mínum er lagt yfir nótt.