Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Þriðjudaginn 20. apríl 2010, kl. 17:43:49 (0)


138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

556. mál
[17:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í kjölfar skýrslunnar góðu, sem við höfum lesið og rætt um undanfarna daga, hafa menn rætt dálítið um hlutverk Alþingis. Hér kemur fram frumvarp sem segir að Alþingi hafi gert mistök við lagasetningu. Það er ekkert annað hægt að lesa út úr þessu. Hæstiréttur kemst að ákveðinni niðurstöðu á grundvelli laga frá Alþingi og síðan kemur í ljós að Eftirlitsstofnun EFTA fellir sig ekki við þennan dóm Hæstaréttar. Það kemur fram í greinargerð í þessu frumvarpi, í athugasemdum, að eitthvað hafi fallið niður eða að Alþingi hafi ekki verið nógu vakandi. Hvað skyldi hafa gerst, frú forseti? Hvar skyldi það frumvarp hafa verið samið? Var það samið á Alþingi? Ónei, fæst frumvörp sem Alþingi hefur samþykkt eru samin á Alþingi, en það ber samt sem áður ábyrgð á þeim. Það eru alveg sérstaklega frumvörp sem hafa innihaldið orðin EFTA, ESB eða eitthvað slíkt sem hafa farið meðvitundarlaust í gegn. Meðvitundarlaust. Ég nefndi fyrir nokkrum dögum og baðst afsökunar á því að hafa skrifað undir frumvarp 1997 sem fór gjörsamlega umræðulaust í gegn og varð til þess að samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að lána starfsmönnum hlutafélags fyrir kaupum á viðkomandi hlutafélagi. Hvað hefur það haft í för með sér? Gífurlega mikla hringekju á peningum, frá hlutafélagi sem lán til starfsmannsins eða hlutafélags í hans eigu, sem var líka heimilað, og síðan frá starfsmanninum til hlutafélagsins í formi kaupa á hlutabréfum. Með þeim hætti jókst eigið fé viðkomandi hlutafélags sem nam kaupunum vegna þess að skuldabréfið var talið til eigna en hlutafé telst aldrei til skulda. Talið er að bankarnir hafi jafnvel getað fresta gjaldþroti sínu um einhverja mánuði með því að auka eigið fé með þessum hætti, sem Alþingi heimilaði hér á dögunum. Þetta á ekki bara við um bankana, þetta á við um öll hlutafélög, líka einkahlutafélög. Svo langt gekk þessi breyting og hún fór í gegn hér á Alþingi án nokkurrar umræðu,

Hér erum við að fjalla um nákvæmlega sama hlutinn, að eitthvað sem er gallað fer í gegn hér á Alþingi. Nú þarf Ísland og alveg sérstaklega dómsvaldið á Íslandi að sætta sig við þá niðurlægingu sem ég les hér, með leyfi frú forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA telur þessa túlkun Hæstaréttar ekki vera í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins í málum er varða túlkun á 3. gr. tilskipunarinnar.“

Sem sagt Hæstiréttur Íslands fær á baukinn frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Mér finnst þetta vera alvarlegt, frú forseti. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og hlutur Alþingis í þessu máli öllu er líka mjög alvarlegur, þannig að ég vil að Alþingi fari að taka sér tak í öllu því sem heitir EFTA- eða ESB-tilskipanir og vakni pínulítið.

Ég nefni t.d. innlánstryggingatilskipun Evrópusambandsins sem hér var tekin upp og hefur valdið því að við þurfum að borga eitthvert fyrirbæri sem heitir Icesave. Þar virðast hv. þingmenn alveg hafa verið jafnhugsunarlausir. Þannig að ég skora á hv. þingheim að vera meira vakandi yfir svona málum. Þótt þetta mál sé ekki stórt og menn kannski skauti létt yfir það, þá er það mjög alvarlegt mál í mínum huga.