Stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 19:28:29 (0)


138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Keisarinn er svo sannarlega í einhverjum fötum í þessum efnum. Ástæðan er sú, eins og ég fór yfir áðan, að fjármagninu sem varið er til þingsályktunartillögunnar er mestmegnis varið til vaxtarsamninganna. Önnur verkefni eru stefnumörkun ráðuneytisins varðandi fjármuni þess. Þetta er forgangsröðun.

Vaxtarsamningarnir eru það sem breytist og breytingin felst í því, eins og ég kom inn á áðan, að ákvarðanataka um dreifingu fjármunanna er færð sem næst fólkinu og fyrirtækjunum sem þá nýta. Þess vegna eru vaxtarsamningarnir tækið sem við raunverulega festum í sessi með byggðaáætluninni og fjármununum sem til hennar verður varið. Hv. þingmaður spyr um fjármunina. Gert er ráð fyrir 320 millj. kr. á ári til byggðaáætlunar á þessu tímabili þannig að samtals verða þetta 2,4 milljarðar að tímabilinu loknu. Þar af fara 219 millj. kr. á þessu ári, 223 millj. kr. á því næsta og 225 millj. kr. á árunum 2012 og 2013 eða samtals —

Virðulegi forseti. Ég er með vitlausa samtölu hér, þetta var ekki alveg rétt hjá mér en megnið af fjármununum eins og hér sést fer í vaxtarsamningana þannig að 892 millj. kr. fara í vaxtarsamningana eða árlega 225 millj. kr. af 320 millj. kr. sem veittar eru til byggðaáætlunar. Annað er forgangsröðun ráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem birtist í þessari greinargerð.