Tekjur og tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf.

Miðvikudaginn 28. apríl 2010, kl. 13:51:31 (0)


138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

tekjur og tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf.

502. mál
[13:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég þakka líka hæstv. ráðherra það hvernig hún svarar því hvort hún hafi íhugað að fella niður útvarpsgjald á lögaðila, að það séu hlutir sem séu til skoðunar innan ráðuneytisins.

Hæstv. ráðherra nefndi fjölbreytileika fjölmiðla eða fjölbreytni. Nú er það svo hér heima að við eigum Ríkisútvarpið og svo höfum við frjálsa fjölmiðla. Þeir frjálsu einkafjölmiðlar sem eru á markaði hafa um áratugaskeið kvartað yfir því að RÚV skuli vera á auglýsingamarkaði og telja að það skaði samkeppnina vegna þess að RÚV hafi í forskot rúma 3 milljarða frá ríkinu í rekstur sinn.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra enn og aftur: Hefur verið farið verulega ofan í saumana á því hvernig Ríkisútvarpið nýtir þá fjármuni sem það fær frá ríkinu, hvar þeir fjármunir liggja og hvort farið sé inn á samkeppnissvið þegar þeir fjármunir eru nýttir? Ef svo er er það samkvæmt 61. gr. klárlegt brot á samkeppnislögum. En þó Ríkisútvarpið brjóti lög um samkeppni virðist því ekki fylgt eftir að það lagfæri og bæti það sem að er.