Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Fimmtudaginn 29. apríl 2010, kl. 12:45:15 (0)


138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita ef það er eins og hæstv. ráðherra segir, og ég ætla ekki að vefengja það, að hluti af þeim peningum sem ákveðið var að heimila ekki að færa á milli ára, að tekin hafi verið um það ný ákvörðun að heimila flutning á einhverju af þessum peningum. Það breytir því ekki að þannig blasti það við á árinu 2009 að ekki yrði um að ræða ný útboð á því ári. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra hefur oft verið að segja, það voru heilmikil verkefni í gangi en það breytti ekki því, og við heyrum það frá verktökum allt í kringum landið, að verktakar kvarta mjög sáran undan því að þeir standa uppi verkefnalausir, tækin þeirra standa verkefnalaus vegna þess að ekki var hægt að fara út í þessar framkvæmdir.

Varðandi Dýrafjarðargöng held ég að rétt sé að halda eftirfarandi til haga: Í gildandi samgönguáætlun, áður en aukið var við hana, var gert ráð fyrir því að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng gætu hafist á árinu 2010. Allur tæknilegur undirbúningur miðaðist við það og honum hafði fleygt svo fram að menn höfðu allar forsendur fyrir sér til að geta hafið útboð á þessum göngum. Við þorskaflaniðurskurðinn árið 2007 var ákveðið að setja aukið fé til vegamála af ýmsum ástæðum þar á meðal til Dýrafjarðarganga. Þegar hæstv. samgönguráðherra kynnti þetta um mitt ár 2007, ég hygg að það hafi verið í júlí 2007, var frá því greint að ætlunin væri sú að hefja útboð árið 2009. Ég hef alveg skilning á því að vegna þeirra aðstæðna sem komu upp haustið 2008 var ekki hægt að standa við það. Ég hef ekki verið að gagnrýna það. Ég hef hins vegar verið að segja að við þurfum að tryggja að við séum ekki að hverfa frá þessu, að við setjum niður einhverja dagsetningu með trúverðugum hætti og nægilegum fjármunum.

Eitt að lokum, óskylt þessu, sem ég komst ekki að að nefna. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði um starfsemina í Stykkishólmi. Ég vil aðeins bæta við starfsemi sem er sambærileg í Bolungarvík og tengist þessum málum, ég vil spyrja hvort ekki gildi það sama um þá starfsemi — ég veit að hæstv. ráðherra veit hvers ég er að vísa til — og starfsemina í Bolungarvík, að þessari starfsemi verði haldið áfram.