Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Fimmtudaginn 29. apríl 2010, kl. 13:42:39 (0)


138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í meginatriðum tekið undir flestallt sem fram kom í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Við munum sinna okkar hugðarefnum varðandi Vestfirðingafjórðung, a.m.k. í samgöngunefnd.

Ég kem fyrst og fremst upp til að leiðrétta mismæli sem mér sjálfri varð á í ræðu rétt áðan þegar ég talaði um að 46% vegakerfisins væru á Vestfjörðum. Það er ekki rétt. Ég hefði sloppið með þetta ef ég hefði sagt Vestfirðingafjórðungur hinn forni (ÁJ: Það er framtíðin.) því að hann náði allt suður í Borgarfjörð. Hv. þm. Árni Johnsen kallar fram í að það kunni að verða framtíðin, við skulum vona að það geti orðið. En þetta sannar að það er tungunni tamast sem hjartanu er næst. Mér eru Vestfirðir mjög hjartfólgnir í samgöngumálum en það sem ég ætlaði að segja var að 46% vegakerfisins liggja í Norðvesturkjördæmi, öllu kjördæminu. Mér er bæði ljúft og skylt að fá að leiðrétta þetta.