Óundirbúinn fyrirspurnatími

Föstudaginn 30. apríl 2010, kl. 12:03:07 (0)


138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

óundirbúinn fyrirspurnatími.

[12:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég óska þess að dagskrá þessa fundar í dag verði breytt og þingflokksformenn og formenn stjórnmálaflokkanna verði boðaðir á fund vegna þess atburðar sem átti sér stað í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem lögreglan reyndi með grófu ofbeldi að ryðja dómsal í opnu réttarhaldi. Þetta er að öllum líkindum gróft brot á lögum og gróf aðför að réttarríkinu og opnu réttarhaldi.

Það var Alþingi sjálft, forseti þess og/eða skrifstofustjóri Alþingis, sem átti upphafið að þessu máli, að það yrði rannsakað og sent til saksóknara. Ég tel brýnt að það verði útskýrt nákvæmlega fyrir Alþingi sjálfu og þingmönnum hver aðkoma Alþingis er að þessu máli, hver á upptökin að því og með hvaða hætti Alþingi hyggst fjalla um það opinberlega, því að þetta var einhver mesti skandall sem um getur og setur spurningarmerki við réttarríkið Ísland.

Það hefur líka komið í ljós að lögreglan var tilbúin með fréttatilkynningar af þessu atviki fyrir fram og þær voru tilbúnar á fjölmiðlum, þær fjölluðu um málið frá hlið lögreglunnar eingöngu (Forseti hringir.) en ekki frá því ógeðslega atviki sem átti sér stað. Þetta er mjög alvarlegt mál sem komið er upp og það er brýnt að forseti þingsins taki það til sín (Forseti hringir.) og útskýri það fyrir þingmönnum.