Erfðabreyttar lífverur

Föstudaginn 30. apríl 2010, kl. 16:53:23 (0)


138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[16:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lögin sem gilda nú eru lög nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, en hér er verið að tala um að innleiða Evróputilskipun þar sem við erum ekki að ganga lengra en gerist og gengur. Raunar er það sums staðar svo að Evrópulönd eru að stíga mjög róttæk skref í áttina að því að hafa heil svæði eða jafnvel lönd án erfðabreyttra lífvera. Þessi umræða er sem sé mjög heit og er viðamikil í Evrópu.

Við erum einfaldlega að tala um það að innleiða þessa tilskipun Evrópuþingsins og þetta er — og ég vona að ég skilji þingmanninn rétt — sama málið og við vorum að tala fyrir í fyrra. Þetta er nákvæmlega sama málið, það náði bara ekki að ganga fram á þinginu. Það fór í nefnd en náði ekki fullri afgreiðslu þannig að það fer þá væntanlega til úrvinnslu í nefndinni núna eins og það gerði síðast, og ég vænti þess að við náum því núna að gera það að lögum.