Heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 12:37:36 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um vandasamt mál sem fjallar um fjárfestingarsamning vegna gagnavers á Suðurnesjum. Í aðra röndina er um að ræða kærkomna innspýtingu inn í íslenskt atvinnulíf á mjög erfiðum tímum, 94 milljarða kr. fjárfestingu inn á það landsvæði þar sem atvinnuleysi er hæst, um 200 bein störf og 330 afleidd störf á svæði þar sem 1.700 manns eru nú atvinnulausir.

Hins vegar tengist málið erfiðum siðferðilegum spurningum um samskipti stjórnvalda við einn af ábyrgðaraðilum bankahrunsins og hefur náðst samkomulag sem felur í sér að þetta verkefni verði að veruleika án þess að fyrrnefndur aðili njóti beins fjárhagslegs ávinnings af þessum samningi. Ég tel að þetta sé ásættanleg lausn sem felur í sér að viðkomandi aðili byrjar að endurgreiða skuld sína við samfélagið.

Ég vil lýsa því yfir eins og kom fram í framsöguræðu minni um frumvarpið í gær að ég óska eftir því að málinu verði vísað til iðnaðarnefndar fyrir 3. umr. þar sem við munum m.a. lagfæra orðalag breytingartillögu okkar um gildistíma fjárfestingarsamningsins þannig að fullt (Forseti hringir.) samræmi verði við orðalag í nýju frumvarpi um ílvilnanir vegna nýfjárfestinga.