Forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 14:05:36 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[14:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða og gagnlega umræðu og tek undir þau sjónarmið að hún þurfi að verða miklu lengri, sérstaklega þegar þingmaðurinn er svo rausnarlegur að tala um forgangsröðun í umhverfismálum sem er ekki nokkuð sem maður klárar á fimm mínútum.

Umhverfismálin snúast fyrst og fremst um að fara úr því að hugsa um lítil svæði til skamms tíma yfir í það að hugsa um stór svæði til langs tíma, það er eiginlega meginhugsunin. Við sem erum kjörnir fulltrúar höfum haft tilhneigingu til að hafa mjög stuttan tíma undir og yfirleitt bara kjörtímabil. Umhverfismálin gera kröfu um að við horfum lengra.

Töluleg markmið eru gríðarlega mikilvæg og ég legg mikið upp úr að þau verði til staðar í aðgerðaáætlun um loftslagsmarkmiðin. Þá erum við með kaflaskipta áætlun, sjávarútveginn, landbúnaðinn, samgöngurnar o.s.frv. Sóknarfærin eru þá bæði verðlögð í krónum og aurum en jafnframt forgangsraðað með tilliti til þess að draga úr losun þannig að ég legg mikla áherslu á það. Það er enginn vandi að búa sér til áætlanir en það er vandi að fylgja þeim.

Náttúruvernd á Íslandi hefur því miður snúist fyrst og fremst um varnarbaráttu hóps sem hefur haft mjög takmarkað fé til ráðstöfunar, verið undir í samfélagsumræðunni og verið undir frammi fyrir þeim meginstraumum og -stefnum sem hafa verið í gangi í samfélaginu í gegnum tíðina. Með því að setja Vatnajökulsþjóðgarð á stofn o.s.frv. erum við að tala um að snúa við blaðinu, að samfélagið sjálft sammælist um að leggja áherslu á náttúruvernd. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli.

Ég vil aðeins nefna umhverfisvottun sveitarfélaga vegna þess að það er verkefni sem Snæfellsnes hefur tekið þátt í, þ.e. Stykkishólmur og öll önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi. Sífellt fleiri sveitarfélög eru byrjuð að skoða þessa möguleika og þá leggja sveitarfélögin fram mælanleg og töluleg markmið fyrir umhverfisstefnu sína. Ég vildi helst sjá að öll sveitarfélög á Íslandi gengjust undir þetta því að umhverfisvottað Ísland væri sannarlega (Forseti hringir.) glæsilegt innlegg í umræðuna, ég tala nú ekki um stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.