Þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 14:08:24 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Tilgangur breytingarinnar er að gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið. Það er gert með því að veita almenna heimild til slíkrar notkunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Má ætla að notkun fánans í þessum tilvikum geti verið til þess fallin að efla atvinnulíf og efnahag landsmanna og verka sem jákvætt skref í endurreisn á íslensku efnahagslífi. Í þessu sambandi má líta til framkvæmdar í Danmörku en þar hefur danski fáninn um langt skeið verið notaður í markaðssetningu á dönskum vörum án mikilla takmarkana. Hefur notkun fánans í þessum tilgangi haft jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, svo sem í landbúnaði, og verið ákveðinn mælikvarði á gæði.

Árið 1995 var skipuð nefnd til að endurskoða fánalögin, einkum það verndarákvæði sem hér á við. Lögunum var í framhaldi breytt með lögum nr. 67/1998, m.a. á þann veg að forsætisráðuneytið öðlaðist heimild til að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða í auglýsingu á vörum enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Voru rök fyrir þessari heimild m.a. þau að auka þyrfti frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Þegar til kom reyndist hins vegar örðugt að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir sem nýst gætu til þess að uppfylla þetta skilyrði laganna á viðunandi hátt og hefur reglugerð um þetta ekki verið sett. Hefur því ekki verið hægt að verða við beiðnum um sérstakt leyfi til að nota fánann. Má því segja að markmiðið með að auka frjálsræði um notkun fánans til markaðssetningar hafi ekki náðst.

Til að bregðast við þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á verndarákvæði laganna í 12. gr. Fela þær í sér að heimilt verði án sérstaks leyfis að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu að uppfylltum þeim skilyrðum að varan eða starfsemin sem um er að ræða sé íslensk að uppruna og fánanum sé ekki óvirðing gerð. Þá er tekið fram að hafi vörumerki verið skráð án þess að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt skuli afmá það úr vörumerkjaskrá samkvæmt kröfu forsætisráðuneytisins.

Loks er forsætisráðherra veitt heimild til þess að setja nánari ákvæði í reglugerð um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu og einnig að hann skeri úr álitaefni og ágreiningi sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæðinu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þá erfiðleika sem mætt hafa mörgum íslenskum fyrirtækjum síðustu missirin hefur framleiðsla á íslenskum afurðum eflst og dafnað og ber að styðja við þann vöxt. Eins og ég nefndi er talsvert svigrúm til notkunar á danska fánanum til markaðssetningar á dönskum vörum og þjónustu og þarf til að mynda ekki sérstakt leyfi yfirvalda þar í landi. Hefur sú framkvæmd haft jákvæð áhrif.

Er það von mín að sú breyting sem hér er lögð til á íslensku fánalögunum nái sama markmiði og að skilyrði um íslenskan uppruna og virðing fyrir fánanum séu til þess fallin að vera hvatning fyrir framleiðendur um að nota fánann íslenskum vörum og framleiðslu til framdráttar.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.