Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 17:19:51 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er á móti því að fyrirtæki veiti styrki. Ég fellst alveg á rökin því að fyrirtæki hafa ekki skoðanir umfram þær sem forstöðumennirnir hafa. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað gerist ef stjórn fyrirtækis ákveður að hækka laun framkvæmdastjórans um 500 þús. kr. með því skilyrði, eða hann veit af því að hann eigi að setja 300 þús. kr. í einhvern flokk, t.d. Hreyfinguna. Þá er það ekki fyrirtækið sem styrkir flokkinn heldur framkvæmdastjórinn eða einhver starfsmaður.

Svo er annað. Hvað gerist ef ASÍ gerir samning við mann um að kynna nýjar reglur, t.d. um hlutaatvinnuleysi eða fæðingarorlof, með ítarlegu kynningarefni og auglýstir eru fyrirlestrar þar sem Jón Jónsson frambjóðandi fjallar um nýjar reglur um fæðingarorlofið. Það vill svo til að þetta er einmitt sömu vikuna og prófkjör fer fram. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera í því? Ríkisfyrirtæki kynnir með sama hætti starfsmenn sína, það á að halda um það fyrirlestra og þessi umræddi Jón Jónsson er ráðinn tveimur vikum fyrir kosningar til þess að kynna þessa starfsemi fyrirtækisins. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera í því? Þetta eru ekki styrkir fyrirtækja en í raun styrkir til viðkomandi einstaklings sem er frambjóðandi.

Síðan langar mig til að vita hvort Hreyfingin hafi þegið einhverja styrki frá ríkinu þrátt fyrir andstöðu sína og að vera sjálftökulið sem ákveður sjálft styrkina.