Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 17:41:21 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki lýst yfir neinni andstöðu við frumvarpið, alls ekki, og ég mun að sjálfsögðu styðja það. Mér finnst það mikið til bóta að upplýsa um styrkina, upplýsa um hagsmunina, þannig að ég er ekkert á móti því. En það sem ég er að benda á er að það er fjöldinn allur af leiðum til að fara fram hjá þessu, því miður. Ég nefndi sögufélag sem hægt er að stofna af reynslu minni erlendis. Ég nefndi líka að fyrirtæki geta farið í þetta á tvennan hátt, tvö fyrirtæki geta gert samkomulag — þú styrkir þennan ef ég styrki þennan, og hvor fái 300 þúsund kall. Þetta er því engin lokalausn á þessum vanda og menn þurfa að vera vakandi áfram yfir því að það séu ekki hagsmunir sem tengjast þessu. Mest um vert finnst mér að vitað sé um þá styrki sem veittir voru og menn viti þá af hagsmununum, hvort menn séu þá í fjölmiðlum eða eitthvað slíkt.

Hv. þingmaður gat ekki stillt sig um að nefna — mér finnst það afskaplega lítið málefnalegt — tvo styrki sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk og voru náttúrlega allt of háir og algerlega úr takti við allt annað. Þeim var skilað. Það er mjög erfitt að fara aftur í söguna og segja að menn hafi fyrir tveimur árum átt að breyta eftir því sem reglurnar eru í dag. Það er eiginlega ekki hægt. Ég held því að menn þurfi að horfa til framtíðar með þessi mál, að þetta sé komið í skikkanlegt horf. En ég vara við því að það er fullt af opnum möguleikum í þessu og því miður er reynsla mín sú að þeir verði nýttir.