Rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 18:07:28 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir framsögu fyrir frumvarpi um rannsóknarstarfsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, er sammála mörgu því sem kemur fram, og m.a. og ekki síst því að mikil tortryggni hefur ríkt í samfélaginu öllu hvað varðar afgreiðslu fjármálafyrirtækja á meðferð skulda, uppgjör fyrirtækja og allt það sem hér hefur verið rætt og þarf ekki að fara dýpra í það. Þeirri tortryggni þyrfti að eyða og það getur vel verið að það náist að gera það með frumvarpi sem hér liggur fyrir, ég ætla að vona það. Nái það fram að ganga mun það verða til að eyða þeirri tortryggni og í það minnsta upplýsa hvernig farið var að málum.

Það umhverfi sem við búum við byggir vissulega ekki á trausti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði áðan hvað það varðar. Það byggir ekki á trausti vegna þess sem hér gerðist, vegna þess efnahagshruns sem hér varð og vegna þeirrar sögu sem það felur í sér og ekki síst vegna þess sem rannsóknarskýrslan, sem birt var hér á dögunum, felur í sér, ekki síst vegna þess sem þar kemur fram. Það er ósköp skiljanlegt — og væri eiginlega óskiljanlegt ef almenningur ætlaði að byggja upp traust á viðskiptum, fjármálastofnunum eða Alþingi á því sem þar kemur fram. Vissulega þarf að efla það traust og gegnsæi er lykilþátturinn í því. Fólk á aldrei að sætta sig við annað en gegnsæi í málum af þessu tagi.