Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 11. maí 2010, kl. 15:07:34 (0)


138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni. Ég held að við séum hér að tæpa á verkefni sem við ættum að skoða alvarlega, hvernig við getum styrkt þetta vinnulag. Ég lít svo á að þetta sé eiginlega spurning um vinnulag og hér erum við kannski fastir í ákveðnum hefðum.

Þingmaðurinn veltir því hér upp hvort við ættum að fara að ræða fjárlög 2011. Það mætti jafnvel spyrja: Eigum við að fara að ræða fjárlög 2012 á þessu stigi málsins? Ég tel að sjálfsögðu ekki að taka eigi pólitíkina út úr fjárlögunum og að ráðherrar eða framkvæmdarvaldið hafi að einhverju leyti möguleika á því að leggja sínar áherslur. Heildarstefnumótunin til næstu þriggja ára, stóri ramminn, ætti hins vegar kannski að fara hér í gegnum þingið með miklu skipulagðari og markvissari hætti. En ég velti fyrir mér þeim vinnubrögðum sem hafa tíðkast á þessu þingi og líka í nefndunum. Menn fara í átakastjórnmálin og þetta verður hörð deila en meðan menn eru kannski ekki alveg nógu samstilltir í því að hafa augun á boltanum, eins og sagt er, hvert er markmiðið, tökumst á um pólitíkina. En við erum öll sammála um að það er næstum því ekki pólitík að þurfa að koma fjárlögum ríkisins í lag hér á næstu tveimur til þremur árum. Það er eiginlega svo miklu stærra mál en svo að við eigum að velta því fyrir okkur í flokkspólitískum farvegi.

Við getum líka horft á það hvernig fyrirtæki haga langtímastefnumótun sinni og horft til þess hvaða vinnulag er þar á ferð. En kannski ég nýti síðustu sekúndurnar í að velta þeim punkti upp með hv. þingmanni hvernig hann sjái fyrir sér að við stígum næsta skref í því. Er það á vettvangi fjárlaganefndar sem við förum og leggjum línurnar eða eru aðrar hugmyndir á lofti í þá veru?