Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 21:14:35 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar ábendingar hv. þingmanns eru allar saman réttmætar. Stofnfjárkerfið var ekki byggt upp af neinni tilviljun. Hugsunin var sú að búa til einhvers konar rótfestu sparisjóðsins við nærumhverfi sitt. Með því að fjöldi stofnfjáreigenda í byggðarlögunum var til staðar skapaðist sú rótfesta sem var svo mikilvæg fyrir sparisjóðakerfið í heild sinni. Ég þekki þetta mjög vel, sjálfur er ég stofnfjáreigandi í Sparisjóði Bolungarvíkur þannig að það fer ekkert á milli mála að ég hef mikil hagsmunatengsl upp á 1,8 millj. kr. sem ég hef gert grein fyrir á heimasíðu Alþingis og ég geri ráð fyrir að það fé verði fært allrösklega niður. Ég geri mér alveg grein fyrir því hvað fyrir okkur stofnfjáreigendum almennt talað vakti, það var að reyna að efla þessa fjármálastofnun í okkar heimabyggð. Í fyrsta lagi var þetta, og er, mjög mikilvæg atvinnustarfsemi. Í öðru lagi hefur komið í ljós hvað eftir annað að þegar aðrar fjármálastofnanir hafa brugðist byggðarlögunum, hvort sem það voru ríkisbankar eða einkabankar — það voru ekkert síður ríkisbankarnir — voru sparisjóðirnir oft og tíðum þeir sem komu til skjalanna, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu þekkingu á umhverfi sínu og gátu tekið skynsamlegar ákvarðanir út frá allt öðrum forsendum en bankarnir sem stóðu miklu fjær þessu umhverfi. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við getum byggt upp þetta stofnfjárkerfi að nýju.

Ég er alveg sammála því að sparisjóður verður ekki réttnefni meðan sú staða verður uppi að stofnféð sé nánast að öllu leyti í eigu ríkisins. Þess vegna held ég að það verði mjög brýnt fyrir ríkið sem núna er búið að marka stefnuna eins og gert hefur verið að sparisjóðirnir komist sem allra fyrst aftur í eigu stofnfjáreigenda, fólksins í byggðunum, og að á þeim grundvelli hægt að byggja upp þetta nýja öfluga sparisjóðakerfi að nýju.