Dómstólar

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 22:51:50 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

dómstólar.

390. mál
[22:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að kveðja mér hljóðs um þetta mál. Þó að ég hafi ekki tekið þátt í 2. umr. vegna veru minnar erlendis tel ég hér um mjög mikilvægt mál að ræða sem er með eindæmum. Með þessu virðist manni einfaldlega verið að slá ryki í augu almennings hvað varðar skipan dómara í Hæstarétt og héraðsdóm.

Tilurð frumvarpsins er meint misnotkun ráðherra á valdi sínu við skipan dómara í Hæstarétt og héraðsdóm. Sú meinta misnotkun hefur þegar farið fyrir dómstóla í einu tilviki þar sem aðferð ráðherra var einfaldlega dæmd ólögleg. Það var því brýnt að koma lagi á skipan dómara enda er þetta eitthvert mikilvægasta starf sem um getur í réttarríki, þ.e. staða hæstaréttardómara og héraðsdómara.

Frumvarpið tekur hins vegar ekki á því. Það er umbúðir um rýrt innihald vegna þess að dómsmálaráðherra hefur áfram vald til þess að ganga gegn áliti svokallaðrar dómnefndar um hæfasta dómarann í embættið. Ákvæði í frumvarpinu eru gjörsamlega óskiljanleg því að tilgangur frumvarpsins var einmitt að koma í veg fyrir slíkar ákvarðanir. Dómsmálaráðherra á að staðfesta eða synja ákvörðun dómnefndar en ef ákvörðun hans gengur gegn áliti dómnefndar á álitið að fara fyrir Alþingi. Þar mun sá meiri hluti á Alþingi, þ.e. sá pólitíski meiri hluti sem stendur að baki sama dómsmálaráðherranum, taka ákvörðun um val ráðherrans á dómara. Það gefur augaleið að sá pólitíski meiri hluti á Alþingi mun ekki lýsa yfir vantrausti á sínum ráðherra eða vali hans. Því er frumvarpið sýndarmennskan ein.

Nánast allir sem töluðu um þetta mál þegar það kom inn í þingið í 1. umr. voru sammála um að til þess að taka af allan vafa í þessu máli þyrfti að koma til aukinn meiri hluti í þinginu. Það hefði verið vel ef það hefði verið gert því að þá hefði verið búið að loka fyrir þá aðferð að ráðherrar geti einhliða með pólitísku valdi skipað dómara án faglegrar ákvörðunar. En því miður sitjum við uppi með sama fyrirkomulag og áður, þ.e. að ráðherra hefur valdið og við vitum hvernig farið hefur verið með það hingað til. Allir núverandi hæstaréttardómarar og allflestir héraðsdómarar eru skipaðir af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Traust á dómstólum er lítið vegna þessa og frumvarpið gerir ekkert til að bæta úr því.

Ég lít svo á að frumvarpið sé í raun algjörlega innihaldslaust og ég átta mig ekki á því hvers vegna einum ráðherra er áfram gefið vald, nánast alræðisvald, til skipunar dómara. Ég lít svo á að frumvarpið sé algjörlega innihaldslaust hvað varðar breytingar á lögum um skipan dómara og sé eingöngu til þess fallið að ríkisstjórnin og forsvarsmenn hennar geti hakað við enn eitt málið á hundraðmálalistanum sínum í stað þess að ganga frá því með afgerandi hætti í eitt skipti fyrir öll að skipan dómara á Íslandi, sem á að heita réttarríki, sé yfir pólitískan vafa hafin. Þetta frumvarp gerir það ekki.