Tæknifrjóvgun

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 16:51:20 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[16:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil koma hingað upp í stutta ræðu til þess að fagna umsögn hv. heilbrigðisnefndar í þessu máli. Ég styð eindregið að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt og tel þetta mjög gott mál.

Mig langar að vekja athygli á öðru máli sem þessu tengist og ég hef haft mikinn áhuga á en það er staðgöngumæðrun. Málin tengjast að því leytinu til að hér er verið að stíga enn eitt skrefið til að útvíkka heimildir fyrir fólk sem hefur af einhverjum ástæðum átt í erfiðleikum með að eignast börn til þess að bæta úr því. Hér er lagt til að bæði verði heimilt að nota gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Ég vil nota þetta tækifæri og benda á að þá tel ég að við séum búin að stíga það stórt skref í þessa átt að ég tel næsta skref eðlilegt að heimilað verði með ströngum skilyrðum og að uppfylltum ströngum reglum að leita til staðgöngumæðra hér á landi. Ég vil hvetja hv. heilbrigðisnefnd til að skoða þau mál með jákvæðu hugarfari og hef raunar í hyggju að leggja fram þingsályktun þess efnis.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu núna en ég vildi koma hingað upp til að lýsa sérstakri ánægju minni með að þetta skref hafi verið stigið og hvetja nefndina áfram til dáða í þessum málum.