Húsnæðismál

Þriðjudaginn 01. júní 2010, kl. 20:32:57 (0)


138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að hér er í reynd um að ræða tvær aðskildar heimildir. Heimildin sem nú er í lögum fyrir Íbúðalánasjóð er að leigja til tólf mánaða þeim sem áður hafa búið í húsnæðinu — við erum núna að innleiða hana í sjálfu sér með frumvarpi því sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fram sem almenna reglu á markaði þannig að allir munu eiga rétt á því að vera í húsnæði að lokinni nauðungarsölu í allt að tólf mánuði gegn greiðslu leigu.

Það sem á hinn bóginn er sjálfstætt úrlausnarefni fyrir Íbúðalánasjóð er hvernig hann tekur á öllum þeim íbúðum sem hann eignast. Það getur verið vegna nauðungarsölu, það getur verið vegna þess að hann leysi til sín aðra eign ef fólk er í tveimur eignum o.s.frv. Það getur verið vegna þess að leigufélög fara í þrot eins og mýmörg dæmi eru því miður um nú. Þá er sú lausn tiltæk að bjóða hverjum sem er, ekki endilega þeim sem áður bjuggu í íbúðinni, að taka viðkomandi íbúð á kaupleigu. Þetta er skynsamlegt fyrir allra hluta sakir. Það er skynsamlegt fyrir sjóðinn að búið sé í íbúðinni og greitt af henni og eitthvað fáist fyrir, það er líka skynsamlegt að greiða fyrir með þessum hætti að húsnæðisöryggi fólks sé tryggt.

Ég hef kynnt þessa hugmynd Samtökum fjármálafyrirtækja og tekið skýrt fram við viðskiptabankana og sparisjóðina að þetta sé hugmynd sem þeir megi gjarnan stela. Ég held að þetta sé mjög skynsamleg leið til að mæta núverandi stöðu. Þetta er skynsamleg leið til að stuðla að eðlilegu flæði á fasteignamarkaði á þessum erfiðu tímum því að það mun auðvitað koma til þess að fólk þurfi að losa sig við eða skipta um húsnæði á þessum tímum eins og öllum öðrum.