Gjaldþrotaskipti o.fl.

Mánudaginn 07. júní 2010, kl. 20:28:08 (0)


138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir hefur fengið ágæta umfjöllun á vettvangi allsherjarnefndar og hv. formaður nefndarinnar, Róbert Marshall, gerði ágæta grein fyrir helstu efnisatriðum þess áðan. Það er ljóst að það tekur á ákveðnum þáttum sem varða þá sem komnir eru í þá afleitu stöðu að vera annað hvort undir gjaldþrotaskiptum eða að eignir þeirra eru komnar á nauðungarsölu. Á sama hátt er tekið á ákveðnum atriðum sem varða breytingu á lögum um lögmenn og innheimtulögum. Það er gert til hagræðis að setja þetta saman í eitt frumvarp þó að um sé að ræða mál sem eru ekki endilega nátengd efnislega, þ.e. breytingarnar á lögmannalögunum og breytingarnar á innheimtulögunum geta tekið til mun fleiri tilvika en þeirra sérhæfðu tilvika sem vísað er til varðandi breytingu á gjaldþrotaskiptalögunum og lögunum um nauðungarsöluna.

Varðandi þær breytingar sem er gerð grein fyrir í 1. og 2. kafla um gjaldþrotaskipti og nauðungarsölu er fyrst og fremst verið að framlengja tímabundna heimild sem var samþykkt á þingi í fyrra, um að þeir sem lenda í þeirri stöðu að heimili eða bú þeirra eru undir gjaldþrotaskiptum eða heimili þeirra komin í nauðungarsölu, hafi rétt til þess að búa þar áfram í allt að tólf mánuði að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Við erum sem sagt fyrst og fremst að framlengja þessa heimild, í staðinn fyrir að um sé að ræða tímabundna heimild sem var samþykkt þegar reynt var að bregðast við afleiðingum bankahrunsins með tímabundnum aðgerðum. Það er verið að gera þessa réttarstöðu í rauninni að almennri reglu og um það er ekki neinn sérstakur ágreiningur, um það er allgóð samstaða. Það þykir eðlilegt að gefa einstaklingum sem lenda í þessari vondu stöðu tækifæri eða aðlögunartíma til þess að búa sig undir þá breytingu og það mikla rask sem þetta hefur fyrir þá og fjölskyldur þeirra, með lengri fresti en hugsanlega væri fyrir hendi ella, og það er verið að einfalda ferlið við að ákveða aðlögunartímann.

Allt er þetta jákvætt og í sjálfu sér mannúðlegt og mótast auðvitað af því að í efnahagsástandinu, sem við höfum búið við frá hruni haustið 2008, hafa auðvitað miklu fleiri einstaklingar og heimili lent í þessari stöðu en verið hefur til þessa. Þetta er því hluti af viðleitni stjórnvalda og Alþingis til þess að auðvelda stöðuna í þeim tilvikum. Það er verið að koma til móts við þá skuldara sem í rauninni eru komnir út í horn, eru komnir út í það að búin eru komin í gjaldþrotaskipti eða heimilin á nauðungarsölu, og létta þeim lífið við þær erfiðu aðstæður. Það er mjög jákvætt.

Hins vegar er auðvitað alveg rétt eins og kom fram, ekki síst í andsvörum við ræðu hv. formanns allsherjarnefndar, að hér er auðvitað um að ræða aðeins lítið brot af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að koma til móts við heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Þetta er bara örlítið skref í þá átt, jákvætt að sönnu, en aðeins um að ræða mjög þrönga og afmarkaða lausn á vanda hóps sem vonandi verður sem smæstur. Frumvarpið sem slíkt felur ekki í sér víðtækari lausnir eins og sum önnur þeirra frumvarpa sem vikið var að í andsvörum áðan og bíða umræðu á þingi.

Út af því vil ég koma á framfæri að það eru auðvitað mál af þessum toga, þetta mál og eins þau mál sem vikið var að hér í umræðunni að framan, sem við eigum að einbeita okkur að á þingi þessa dagana. Vandinn er fyrir hendi, hann er sár, ekki bara fyrir hundruð og þúsundir einstaklinga heldur jafnvel fyrir tugþúsundir einstaklinga í landinu. Vandinn snýr að því að hið mikla áfall sem við urðum fyrir í efnahagsmálum hefur sett svo ótalmarga í þá aðstöðu að eiga í vandræðum með að ná endum saman, eiga í vandræðum með að eiga fyrir afborgunum af lánum og helstu lífsnauðsynjum. Þess vegna þarf að bregðast við með víðtækum og margvíslegum hætti og það eru þau mál sem við eigum að einbeita okkur að á þinginu og eigum ekki að dreifa athyglinni, sérstaklega þegar tíminn er knappur, í umræðu um önnur mál sem ekki liggur á með sama hætti. Fjölmörg dæmi eru um slík mál sem ekki liggur á og getum við rætt þau síðar ef ástæða þykir til.

Það sem endurspeglaðist í andsvörunum áðan, þegar hv. þingmenn fóru að inna hv. formann allsherjarnefndar eftir stöðu nokkurra annarra mála, er líka til vitnis um annað. Það er til vitnis um að þessi mál eru í mörgum pörtum. Aðgerðir til hjálpar heimilum og einstaklingum eru í mörgum pörtum og eru til umræðu í fleiri en einni og fleiri en tveimur nefndum í þinginu. Ég hef stundum nefnt innan allsherjarnefndar að það skorti nokkuð á að við þingmenn hefðum heildarsýn yfir stöðu mála sem eru til umfjöllunar. Það er einkum um að ræða skörun milli mála sem eru á borði allsherjarnefndar og lúta að réttarfarslöggjöf, eins og löggjöf sem varðar gjaldþrotaskipti, nauðungarsölu og þess háttar, og síðan mála sem snerta með öðrum hætti skuldastöðu heimilanna og eru til meðferðar á vettvangi félagsmálanefndar. Ég hef hvatt til þess að þess væri gætt við afgreiðslu þeirra mála að þar yrði samhengi á milli og samræmi, svo það væri auðveldara fyrir okkur sem fjöllum um þessi mál og greiðum atkvæði um þau þegar þar að kemur, að átta okkur á því hvað við erum að gera, hvaða breytingum við náum fram og hvað stendur þá hugsanlega út af borðinu, hvað við eigum eftir að klára.

Nú er það svo að allsherjarnefnd var kannski með afmarkaðri mál, þau sem snúa beinlínis að réttarfarslögunum, og félagsmálanefnd fjallar um þetta á víðtækari grunni. Ég vil því nota þetta tækifæri, af því að allsherjarnefnd hefur klárað ákveðin mál í þessu sambandi, að hv. félagsmálanefnd kynni sér það sem hefur verið gert af okkar hálfu og gæti þess að gera ekki lagabreytingar sem hugsanlega kunna í einhverjum tilvikum að stangast á við það sem við höfum samþykkt á vettvangi allsherjarnefndar. Nóg um það.

Ef ég sný mér að efnisatriðum frumvarpsins, þá vil ég endurtaka að þær breytingar sem hér eru boðaðar eru jákvæðar og til bóta svo langt sem þær ná. Það eru hins vegar ákveðin atriði þarna sem æskilegt hefði verið að skýra nánar. Það skýrir að ég undirritaði nefndarálit með fyrirvara. Það má líta á þessi orð mín sem skýringu á þeim fyrirvara. Hann lýtur sem sagt ekki að neinu leyti að þeim meginbreytingum sem felast í frumvarpinu heldur að afmörkuðum atriðum í textanum. Það eru vandamál sem mér fannst kannski að þyrfti að skoða betur og gætu hugsanlega valdið vandkvæðum í framkvæmd, því að í frumvarpstextanum er vísað til atriða sem eru að einhverju leyti mjög huglæg eða menn geta a.m.k. skilið með mismunandi hætti.

Ef ég fer yfir þetta í stuttu máli þá er vísað til þess í 1. gr. að fyrir afnot einstaklings sem fær að dvelja áfram á heimili sínu eða fær að dveljast áfram í því húsnæði sem orðin er eign þrotabús hans, skuli greidd leiga sem nemi a.m.k. þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni. Þetta getur valdið ákveðnum vafa í framkvæmd og lýtur að þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni. Nú kann að vera að skiptastjórar, sem hafa valdið í þessum efnum, meðhöndli með mismunandi hætti mál sem kunna að öðru leyti að vera sambærileg, þegar þeir fara að meta kostnaðinn sem þrotabú ber af eigninni. Það er hægt að skilja þetta þröngt þannig að það sé aðeins um að ræða beinan útlagðan kostnað en það er líka hugsanlegt að einhverjir telji ástæðu til þess að skoða þetta með víðtækari hætti.

Þessu varpa ég fram í umræðunni, þetta er atriði sem þarf að huga að. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi valdið vandræðum á þeim tólf mánuðum sem eru liðnir frá því að bráðabirgðaákvæðið, sem er nokkurn veginn samhljóða, var samþykkt. Þetta kann þó að vera atriði sem huga ber að þegar farið verður nánar yfir málin.

Sama á við í 3. gr. þar sem fjallað er um nauðungarsölurnar, að einstaklingur sem lendir í því að selja á heimili hans nauðungarsölu getur dvalist þar áfram í allt að tólf mánuði gegn greiðslu sem rennur til kaupanda og svarar að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Erfitt getur verið að meta hvað sé hæfileg húsaleiga. Þarna eru hugtök í lagatextanum sem kann að vera erfitt að meta. Það má auðvitað segja að samþykkt ákvæða af þessu tagi getur leitt til ákveðinna vandræða við að framfylgja ákvæðinu þegar á það reynir.

Síðan er rétt að vekja athygli á öðru. Þegar svo háttar til að búið er að selja hús eða íbúð nauðungarsölu og sýslumaður metur hæfilega húsaleigu og leggur það fyrir að viðkomandi fái að búa þar í tólf mánuði gegn því að greiða hæfilega húsaleigu, þá getur auðvitað skapast sú staða að viðkomandi borgi einfaldlega ekki eða borgi bara í byrjun og hætti svo að borga. Þá kunna að skapast vandræði þegar bregðast á við því. Auðvitað getur sá sem kaupir eign farið aftur til sýslumanns og fengið ákvörðunina endurskoðaða en það er hætt við því að það ferli sé dálítið tafsamt og eins að sá sem kaupir eignina, lendi í því að fá ekki hugsanlegt tjón sitt bætt. Ég kann ekki lausnina á þessu og er þess vegna ekki með neina breytingartillögu hvað þetta atriði varðar en ég vildi vekja athygli á því að þetta er atriði sem getur valdið ákveðnum vandkvæðum í framkvæmd.

Ég ætla ekki tímans vegna að fjalla um önnur atriði frumvarpsins nema það sem lýtur að því sem fram kemur í 6. gr. og varðar leiðbeiningar handa lögmönnum sem gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra gefi út. Nefndin stóð frammi fyrir ákveðnu álitaefni í þessu sambandi, sem er vikið að í nefndarálitinu, að talið hefur verið að leiðbeiningar af þessu tagi, a.m.k. þegar þær voru gefnar út af Lögmannafélaginu, geti falið í sér samkeppnishindranir. Samkeppniseftirlitið kom slíkum sjónarmiðum á framfæri þegar málið kom til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Nefndin taldi hins vegar ekki ástæðu til þess að gera breytingu á frumvarpinu í ljósi þeirra athugasemda, með vísan til þess að það væri álitamál að hvaða marki samkeppnissjónarmið kæmu þarna að.

Hins vegar er það auðvitað spurning, sem ég kann ekki svarið við, hvort ráðherra eigi að leita álits hjá Lögmannafélaginu varðandi gjaldskrá eða ekki. Ég held að niðurstaða nefndarinnar hafi verið skynsamleg í þessu. Hins vegar má spyrja hvaða stöðu leiðbeiningar sem ráðherra gefur út hafa í þessu sambandi. Þetta er ekki gjaldskrá. Spurningin er sú hvort leiðbeiningarnar verða settar í reglugerðarformi eða einhverju sambærilegu formi. Í mínum huga er því ekki klárt, ef við getum orðað það svo, hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef lögmaður færi ekki eftir leiðbeiningunum. Að því leyti er þetta ákvæði sem vekur spurningar frekar en að svara þeim.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðuna lengri að sinni. Eins og ég sagði í upphafi var samstaða um afgreiðslu málsins í nefndinni. Við teljum að það sé mikilvægt að með þessum hætti sé komið til móts við þá sem lent hafa í þeirri stöðu að eignir þeirra eru annaðhvort komnar á nauðungarsölu eða bú þeirra komið til gjaldþrotaskipta. Þetta er auðvitað, eins og ég sagði líka, bara hluti af lausn á vanda sem því miður virðist vera mikill og vaxandi. Við heyrum af því í fjölmiðlum og sjáum upplýsingar um að sífellt fleiri einstaklingar og raunar fyrirtæki líka eru að lenda í þeirri stöðu að lenda í gjaldþrotaskiptum og eiga yfir höfði sér nauðungarsölur. Nýjar tölur frá Seðlabankanum sýna glöggt að fram til þessa hefur fjöldi heimila sem eru í þeirri stöðu trúlega verið stórlega vanmetinn. Við skulum því ekki gera lítið úr þessu. Við skulum hins vegar, hæstv. forseti, jafnframt viðurkenna að hér er aðeins um að ræða brot af þeim lausnum sem við á þingi þurfum að færa fram til þess að aðstoða heimilin og fyrirtækin í landinu til að komast í gegnum þær miklu efnahagsþrengingar sem við eigum nú við að stríða.