Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 11:50:50 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er verið að ljúka við gerð rammaáætlunar fyrir fjárlagagerð á næsta ári. Við vinnum samkvæmt rammafjárlögum. Sú vinna er á lokasprettinum. Ráðuneytin eru að fella starfsemi sína inn í þann ramma sem verið er að ganga frá. Það er heilbrigðisráðuneytið líka að gera. Það verður að skoða og endurmeta heilbrigðisþjónustuna í landinu öllu. Vissulega koma Suðvesturlandið og suðvesturhornið sterklega inn í þá mynd. Sú niðurstaða sem fékkst í ríkisstjórn hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þegar hann var heilbrigðisráðherra, um endurskipulagningu á kragasjúkrahúsunum þarf ekki að vera sú eina rétta. Það er verið að horfa á landið í heild. Það er verið að horfa til endurskipulagningar á heilbrigðisþjónustunni allri. Eins hvað varðar sérfræðiþjónustuna, eins hvað varðar að koma hér á tilvísunarkerfi og það er allt undir. Þessi vinna er í fullum gangi.

Heilbrigðisnefnd verður vissulega að fylgjast vel með en við getum kannski ekki fengið fram frekari upplýsingar, við getum ekki farið fram úr ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur gefið okkur þær upplýsingar, komið með þær upplýsingar inn í nefndina, á hvaða stigi þessi vinna er og það segir sig sjálft að nú þýðir ekkert að fara í flatan niðurskurð. Það verður að stokka heilbrigðisþjónustuna upp þannig að hún sé trygg og örugg. Við verðum að horfa til (Forseti hringir.) landsins alls og þar koma sjúkraflutningar líka sterklega inn í endurskipulagninguna.