Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 20:34:51 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[20:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort hún hafi einhverjar skýringar á því af hverju við erum lent í þessum farvegi og af hverju um er að ræða þessa ægilegu stífni, og þá sérstaklega af hálfu annars stjórnarflokksins, í þessu máli. Ég furða mig á því að ekki skuli lengra seilst til að ná sáttum í málinu og ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Vigdís Hauksdóttir getur aðeins hjálpað mér að átta mig á því hvað gæti búið að baki.

Ég er ekki að spyrja hv. þingmann, ég vil bara nefna, í tilefni af orðum hv. þingmanns í ræðu hér áðan, að þegar talað er um u.þ.b. hálfan milljarð í sambandi við kostnað við stjórnlagaþing hallast ég fremur að þeirri tölu sem hv. þm. Þráinn Bertelsson nefndi í ræðu sinni áðan, að þegar allur kostnaður yrði saman tekinn væri ólíklegt að hann yrði undir milljarði. Við höfum ekki miklar forsendur til að draga ályktanir í þeim efnum. Fjármálaráðuneytið birti kostnaðaráætlun með upphaflegu frumvarpi þar sem mér sýnist að flestir kostnaðarliðir séu afar varlega áætlaðir svo ekki sé meira sagt. Þegar liggur fyrir að kostnaður vegna kosninga til stjórnlagaþings verður umtalsvert meiri en þar kemur fram því að þá var gert ráð fyrir að kosningarnar færu fram samhliða sveitarstjórnarkosningum en nú er ljóst að kosningar þurfa að fara fram sérstaklega. Svona kosningar geta kostað 160–180 milljónir bara í beinan útlagðan kostnað. Bara þar erum við að tala um umtalsverðan kostnað sem ekki er talinn með í kostnaðaráætluninni sem birtist með frumvarpinu.

Að auki eru það allir óvissuþættirnir sem fjármálaráðuneytið gerir vissulega grein fyrir. (Forseti hringir.) Þegar við ræðum tölur í þessu sambandi verðum við að segja: Þetta gæti kostað á (Forseti hringir.) bilinu 500–1.000 millj. kr.