Markaðsátak í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 10:47:11 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

markaðsátak í ferðaþjónustu.

[10:47]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst eftir að þetta átak fór af stað — sem er einstakt í sögu íslenskrar ferðaþjónustu vegna þess að þar koma allir aðilar, bæði opinberar stofnanir og líka fyrirtæki í ferðaþjónustu, saman til að auglýsa Ísland sem vörumerki, ekki bara einstök fyrirtæki. Þannig nýtast fjármunirnir miklu betur en ella. Það er samdóma álit okkar sem að þessu höfum staðið að kjarninn í framtíðarmarkaðssetningu á Íslandi eigi einmitt að vera með þessum hætti en ekki í litlum brotum eins og verið hefur hingað til. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Ég hef lýst því áður í þessum stól að það er alveg klárt að við þurfum að fara að efla ferðaþjónustuna innan stjórnsýslunnar. Við þurfum líka að fara að efla hlut ferðaþjónustunnar í rannsóknum. Það er einfaldlega þannig. Við ætlum að byggja upp myndarlega ferðaþjónustu og hún hefur verið á fleygiferð og undirstaða hennar eru rannsóknirnar. Þetta er verkefni sem við höfum í höndum til að vinna að og til að geta stutt við uppbyggingu ferðaþjónustu.

Ekki má gleyma þeirri vöruþróun sem á sér stað á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu, til að dreifa ferðamönnum betur yfir árið. Við getum kannski rætt það síðar, ég og hv. þingmaður.