Aðildarumsókn Íslands að ESB

Miðvikudaginn 09. júní 2010, kl. 10:54:18 (0)


138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Nú er það þannig, frú forseti, að við munum væntanlega ekki fresta 17. júní þó að ónefndur maður hafi látið fresta jólunum á hinni öldinni. Hvort hægt er að fá hið mikla Evrópusamband til að breyta fundaplani sínu skal ósagt látið og eins og ég segi er það ekki beint á mínu verksviði. Ég hvet þá hv. þingmann til að ræða það mál við utanríkisráðherra. Hann er vaskur maður og vígreifur og það kann vel að vera að hann sé til í að leggja í þann leiðangur að biðja Evrópusambandið að endurskoða fundaplön sín.

Alþingis er það, ásamt með stjórnvöldum, að meta framvindu þessara mála. Ef ég man rétt er það beinlínis tekið fram í ályktuninni og nefndaráliti nefndarinnar, að sjálfsögðu skiptir það máli að fylgjast með framvindu málsins og þróun þess og það er einmitt ætlunin að gera. Komi upp einhver ný staða í þeim efnum, sem væntanlega væri þá af stærra tilefni en þessu, getur Alþingi að sjálfsögðu gert það. Það var skrifað inn í textana að menn mundu að sjálfsögðu fylgjast með framvindu málsins og hvernig þetta allt gengi.